Erlent

Full­trúar Talíbana á ráð­stefnu í Ósló

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Frá fyrra ferðalagi Talíbana til Noregs árið 2022.
Frá fyrra ferðalagi Talíbana til Noregs árið 2022. Talíbanastjórnin

Ráðstefnan Afghanistan Future Though Forum hefur farið fram í Ósló síðustu daga þar sem fulltrúar Talíbana eru meðal gesta. Utanríkisráðherra Noregs segir að það séu ekki leiðtogar Talíbana sem sækja fundi heldur fulltrúar á þeirra vegum.

Samkvæmt VG sækir fjölbreyttur hópur Afgana fundi ráðstefnunnar, þar á meðal konur, minnihlutahópar og fá þar ólíkar sýnir á stjórnmálin hljómgrunn.

„Við höfum það ekki í huga að gefa afgönsku þjóðina upp á bátinn, þó svo að Talíbanar séu við völdin,“ hefur VG eftir Espen Barth Eide utanríkisráðherra.

Þegar Talíbanar tóku völdin í Afganistan árið 2021 lokuðu Norðmenn sendiráði sínu í Kabúl, höfuðborg landsins, og komu öllum starfsmönnum þess úr landi. Enginn leiðtogi innan Talíbanahreyfingarinnar sé viðstaddur á ráðstefnunni heldur sé frekar um fulltrúa á þeirra vegum að ræða.

„Það er mikilvægt að Afganir taki sjálfir þátt í að finna lausnir á þeim stóru áskorunum sem Afganistan stendur frammi fyrir. Noregur vill leggja sitt af mörkum í þágu þess,“ segir Eide.

„Fundirnir voru fyrir og með Afgönum og var það Fatima Gailani, sem hefur barist fyrir rétti afganskra kvenna í marga áratugi, sem fór fyrir þeim. Samnefnari allra þátttakenda er að þeir trúa á samræðu og taka afstöðu á móti vopnuðum átökum,“ segir hann jafnframt.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×