Innlent

At­vinnu­bíl­stjórar sýni minnstu tillitssemina

Bjarki Sigurðsson skrifar
Verkstjórar segja að atvinnubílstjórar séu hvað ótillitssamastir þegar verið er að aka fram hjá vinnusvæði.
Verkstjórar segja að atvinnubílstjórar séu hvað ótillitssamastir þegar verið er að aka fram hjá vinnusvæði. Vísir/Vilhelm

Verkstjórar hjá Vegagerðinni og ÍAV segja atvinnubílstjóra vera almennt ótillitsamari en aðrir þegar ekið er fram hjá framkvæmdasvæði. Það eru þá rútubílstjórar, strætóbílstjórar, vörubílstjórar og aðrir.

Þetta kom fram á morgunfundi Vegagerðarinnar um öryggi starfsfólks við vegavinnu sem haldinn var í gærmorgun. 

Á fundinum ræddi Þröstur Reynisson, verkstjóri á þjónustustöð Vegagerðarinnar í Borgarnesi, upplifun sína á að starfa úti á vegi, sér í lagi í holuviðgerðum. 

„Hann var ómyrkur í máli og sagði hraðakstur allt of algengan og þótti lítil virðing borin fyrir þeim sem starfa á vegum úti. Hans upplifun er að atvinnubílstjórar sýni minnstu tillitssemina en stjórnendur þjónustustöðvarinnar séu duglegir að hringja í fyrirtækin sem oft taki vel á málunum í kjölfarið,“ segir í tilkynningu á vef Vegagerðarinnar. 

Ágúst Jakob Ólafsson, yfirverkstjóri hjá ÍAV, tók undir með Þresti og ræddi einnig að atvinnubílstjórar séu ótillitsamari en aðrir.

Þá sagði hann frá reynslu fyrirtækisins við framkvæmdir á umferðarþungum vegum á borð við Suðurlandsveg milli Hveragerðis og Selfoss og nú Reykjanesbraut. Verktakinn hefur sett upp tvær stuttar hjáleiðir við framkvæmdasvæðið og sett þar upp merkingar og skilti sem mæla hraða ökumanna. Hraðinn á öllu framkvæmdasvæðinu er 70 km/klst en á hjáleiðunum 50 km/klst. Allt of algengt sé að menn aki of hratt gegnum framkvæmdasvæðið, svo og hjáleiðirnar. Sá sem ók hraðast mældist á 174 km hraða þegar hann var að koma út úr annarri hjáleiðinni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×