Erlent

Verð­hækkanir á döner-kebab eitt helsta á­hyggju­efni Þjóð­verja

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Það gengur á ýmsu í heiminum en kanslari Þýskalands er einna oftast spurður að því af unga fólkinu hvort það sé ekki kominn tími til að setja þak á verðið á kebab.
Það gengur á ýmsu í heiminum en kanslari Þýskalands er einna oftast spurður að því af unga fólkinu hvort það sé ekki kominn tími til að setja þak á verðið á kebab. AP/Hannes P. Albert

Ríkisstjórn Olaf Scholz, kanslara Þýskalands, hefur séð sig neydda til að útskýra það á samfélagsmiðlum hvers vegna það verður sífellt dýrara að kaupa sér kebab.

Svokallaður döner-kebab, sem er búinn til úr kjöti steiktu á lóðréttum teini, er einn vinsælasti skyndibiti Þjóðverja og Scholz og aðrir stjórnmálamenn segjast vera spurðir að því í gríð og erg hvort það sé ekki tímabært að festa verðið á réttinum.

Stjórnvöld segja launahækkanir og orkukostnað meðal þeirra þátta sem hafa leitt til verðskriðsins en nú hefur stjórnmálaflokkurinn Vinstrið tekið málið á sína arma og kallað eftir kebabþaki, það er að segja hámarksverði.

Samkvæmt flokknum kostaði kebabinn aðeins um fjórar evrur fyrir tveimur árum en stendur nú í um tíu evrum. Vinstrið leggur til að þakið verði 4,90 evrur almennt og 2,90 evrur fyrir ungt fólk. Þá hefur hann einnig lagt til að öll heimili fái daglega afsláttarmiða.

Áætlað er að um 1,3 milljarðar kebaba seljist í Þýskalandi á ári hverju, þar af 400 þúsund á dag í Berlín. Vinstrið hefur reiknað út að niðurgreiðslur hins opinbera, sem flokkurinn leggur til, myndu nema um fjórum milljörðum evra á ársgrundvelli.

Scholz, sem segir sláandi hversu oft hann er spurður út í verðhækkanir á keböbum, segir ómögulegt að ætla ríkinu að stjórna verðþróun á skyndibitanum. Ungt fólk hefur brugðist við afstöðu kanslarans með því að kalla eftir endurkomu forvera hans, Angelu Merkel, sem hafi „haft stjórn á dönernum“.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×