Dort­mund leiðir þökk sé þrumu­skoti Füll­krug

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Niclas Füllkrug fagnar marki sínu.
Niclas Füllkrug fagnar marki sínu. EPA-EFE/FRIEDEMANN VOGEL

Borussia Dortmund leiðir 1-0 eftir fyrri leik liðsins gegn París Saint-Germain í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu karla í knattspyrnu. Leikurinn var gríðarlega jafn en þrumuskot Füllkrug reyndist munurinn að þessu sinni.

Það var nokkuð ljóst að spennustigið var hátt og það var lítið um opnanir. Þegar tæpar tíu mínútur voru til loka fyrri hálfleiks tókst heimamönnum að brjóta ísinn. Nico Schlotterbeck átti þá langa sendingu fram völlinn á Füllkrug sem tókst rétt svo að halda sér réttstæðum.

Füllkrug tók meistaralega á móti boltanum áður en hann þrumaði honum hálfpartinn undir Gianluigi Donnarumma í marki gestanna. Setja má spurningamerki við markvörð gestanna en fast var skotið í netið fór það.

Staðan 1-0 í hálfleik og þannig var hún framan af síðari hálfleik. Bæði lið fengu færi til að skora í síðari hálfleik, þá sérstaklega gestirnir. 

Achraf Hakimi átti skot í stöng, Kylian Mbappé fékk færi sem hann nýtir alla jafna sem og Ousmane Dembélé brenndi af einu ef ekki tveimur góðum færum.

Heimamenn vildu fá vítaspyrnu þegar Füllkrug féll í teignum eftir að varnarmaður PSG lagði hendi sína á bak framherjans. Þá fékk hann færi til viðbótar en tókst ekki að skila knettinum í netið.

Allt kom fyrir ekki, mörkin urðu ekki fleiri og Dortmund vann 1-0 sigur. Einvígið er því enn galopið fyrir síðari leik liðanna sem fer fram í París þann 7. maí næstkomandi.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira