Íslenski boltinn

„Sé okkur ekkert þurfa að elta þær“

Smári Jökull Jónsson skrifar
Vigdís Lilja Kristjánsdóttir skoraði tvö mörk fyrir Blika í dag.
Vigdís Lilja Kristjánsdóttir skoraði tvö mörk fyrir Blika í dag. vísir/Hulda Margrét

Vigdís Lilja Kristjánsdóttir byrjaði tímabilið í Bestu deildinni heldur betur vel en hún skoraði tvö mörk fyrir Breiðablik í 3-0 sigri liðsins á Keflavík í kvöld.

„Þetta er geggjað að byrja sumarið með stæl. Geggjaður leikur hjá liðinu,“ sagði Vigdís Lilja í samtali við Vísi eftir leikinn.

Í viðtali við Nik Chamberlain þjálfara Blika eftir leikinn sagði hann að hann hefði sagt við Vigdísi þegar hann kom frá Þrótti í vetur að hún yrði framherjinn hans. Hvernig hefur Nik komið inn í Kópavoginum?

„Mér finnst hann geggjaður. Ef þú stendur þig vel þá færð þú traustið frá honum. Það eru miklar kröfur en hann er sanngjarn.“

Vigdís Lilja skoraði eins og áður segir tvö mörk í leiknum. Það fyrra kom á 20. mínútu en hún slapp þá alein í gegn eftir góða sendingu frá Anna Nurmi innfyrir vörn Keflavíkur.

„Ég var eiginlega ekkert að hugsa, ég ætlaði bara að keyra nálægt til að geta sett hann í markið.“

Í flestum spám fyrir mótið er Blikum spáð góðu gengi. Spárnar gera þó ráð fyrir að erfitt verði að eiga við lið Vals sem hefur sett saman ansi gott lið fyrir tímabilið. Vigdís Lilja hefur þó fulla trú á Blikaliðinu.

„Við ætlum bara að gera eins vel og við getum og stefna á titilinn. Þær eru með mjög góða leikmenn en við erum það líka. Við erum með frábært lið og ég sé okkur ekkert þurfa að elta þær. Við erum bara í fullri baráttu við þær.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×