Erlent

Hand­tekinn í tengslum við á­form um að ráða Selenskí af dögum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Joe Biden Bandaríkjaforseti er meðal þeirra sem hafa notað flugvöllinn.
Joe Biden Bandaríkjaforseti er meðal þeirra sem hafa notað flugvöllinn. Getty/Omar Marques

Pólskur maður hefur verið handtekinn í tengslum við áform rússneskra yfirvalda um að ráða Vólódímír Selenskí Úkraínuforseta af dögum. Þetta segja saksóknarar í Póllandi og Úkraínu.

Í yfirlýsingu frá ákæruvaldinu í Póllandi segir að maðurinn, sem er kallaður Pawel K, sé sakaður um að hafa haft í hyggju að veita Rússum upplýsingar um flugvallaröryggi. Þá er hann sagður hafa verið handtekinn í Póllandi á miðvikudag.

Upplýsingarnar sem maðurinn hugðist koma til Rússa varða Rzeszów-Jasionka flugvöllinn í suðausturhluta Póllands, nærri landamærunum að Úkraínu, sem þjónar sem miðpunktur flutninga hergagna og annarra aðfanga inn í Úkraínu.

Flugvöllurinn er undir stjórn Bandaríkjahers og þangað koma gjarnan erlendir ráðamenn þegar þeir heimsækja Selenskí. Selenskí er sjálfur tíður gestur vallarins.

Maðurinn á yfir höfði sér allt að átta ára fangelsi.

Guardian greinir frá þessu en í frétt miðilsins kemur einnig fram að samkvæmt yfirvöldum í Þýskalandi hafi tveir Þjóðverjar af rússneskum uppruna verið handteknir fyrir njósnir en einn þeirra er sagður hafa samþykkt að fremja árásir til að koma í veg fyrir flutning neyðargagna til Úkraínu.

Þeir voru sömuleiðis handteknir á miðvikudag.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×