Fótbolti

Austur­rískur sigur ýtti Ís­landi niður í þriðja sæti

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Úr leik dagsins.
Úr leik dagsins. Mateusz Slodkowski/Getty Images

Austurríki lagði Pólland 3-1 í undankeppni EM 2025 kvenna í knattspyrnu sem fram fer í Sviss. Liðin eru í riðli 4 í A-deild ásamt Íslandi og Þýskalandi. Sigur Austurríkis ýtir Íslandi niður í 3. sætið en íslensku stelpurnar töpuðu 3-1 í Þýskalandi í dag.

Austurríki tapaði fyrir Þýskalandi í 1. umferð undankeppninnar á meðan íslenska liðið lagði Pólland. Báðar þjóðir þurftu því á sigri að halda til eiga möguleika á að enda á í 2. sæti riðilsins.

Sarah Puntigam kom Austurríki yfir eftir stundarfjórðung. Reyndist það eina mark fyrri hálfleiks og staðan 0-1 í hálfleik. Ewelina Kamczyk jafnaði metin snemma í síðari hálfleik en Lilli Purtscheller kom Austurríki yfir á nýjan leik tíu mínútum síðar.

Eileen Campbell gulltryggði sigurinn svo þegar tvær mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma, lokatölur 1-3 og Austurríki lyftir sér upp fyrir Ísland í riðlinum.

Stöðuna í riðli 4 má finna á vef Knattspyrnusambands Íslands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×