Erlent

Réttar­höld í Pana­ma­skjala­máli hafin

Kjartan Kjartansson skrifar
Lögmenn og starfsmenn Hæstaréttar Panama fyrir utan dómshúsið þar sem Panamaskjalamálið var tekið fyrir í dag.
Lögmenn og starfsmenn Hæstaréttar Panama fyrir utan dómshúsið þar sem Panamaskjalamálið var tekið fyrir í dag. AP/Agustín Herrera

Eigendur lögmannsstofunnar Mossack Fonseca eru á meðal 27 sakborninga sem svara til saka fyrir peningaþvætti sem tengist Panamaskjölunum alræmdu í réttarhöldum sem hófust í Panama í dag. Panamaskjölin felldu meðal annars ríkisstjórn Íslands eftir að þeim var lekið frá lögmannsstofunni.

Um ellefu milljónir skjala með fjárhagsupplýsingum ríkra og valdamikilla einstaklinga víðs vegar að úr heiminum árið 2016 vörpuðu ljósi á hvernig þeir komu eignum undan yfirvöldum heima fyrir í aflandsfélögum í skattaparadísum eins og Panama og Jómfrúareyjum.

Ríkisstjórn Íslands féll eftir að í ljós kom að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þáverandi forsætisráðherra, og kona hans hefðu átt alflandsfélagið Wintris á eyjunni Tortóla á Bresku Jómfrúareyjum sem Mossack Fonseca útvegaði. Viðtal sem Sigmundur Davíð gekk út úr eftir að hann var spurður út í félagið fór víða um heim.

Uppljóstranirnar í skjölunum velgdu fleiri þjóðarleiðtogum og stjórnmálamönnum víða um heim undir uggum. Skjölin komu frá lögmannsstofunni Mossack Fonseca í Panama. Fyrirtækið sagðist fórnarlamb tölvuinnbrots og hélt því fram að upplýsingarnar í skjölunum væru teknar úr samhengi.

Neitaði sök

Jurgen Mossack og Ramón Fonseca Mora, eigendur lögmannsstofunnar sem ekki er lengur starfandi, eru á meðal 27 fyrrverandi fulltrúa, lögmanna og starfsmanna Mossack Fonseca sem eru ákærðir í málinu sem var tekið fyrir í dag. Mossack neitaði sök fyrir dómi en lögmaður Fonseca sagði að hann væri á sjúkrahúsi í Panama.

Málið byggir á ásökunum um að Mossack Fonseca hafi stofnað skúffufyrirtæki í Panama sem þvættuðu fjármuni úr gríðarlegu umfangsmiklu spillingarmáli í Brasilíu sem hefur verið kennt við bílaþvott og hefur skekið þarlend stjórnmál um árabil, að sögn AP-fréttastofunnar.

Fonseca hefur haldið því fram að lögmannstofan hafi ekki haft neitt um það að segja hvernig skjólstæðingar þess notuðu aflandsfélögin sem hún stofnaði fyrir þá. Þeir Mossecka voru sýknaðir í öðru skyldu peningaþvættismáli árið 2022.

Verði eigendurnir fundnir sekir gætu þeir átt yfir höfði sér allt að tólf ára fangelsi, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×