Fótbolti

Gagn­rýnin í garð Haaland hafi verið „ó­sann­gjörn og al­gjört bull“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Erling Braut Haaland var í strangri gæslu gegn Arsenal síðastliðinn sunnudag.
Erling Braut Haaland var í strangri gæslu gegn Arsenal síðastliðinn sunnudag. Visionhaus/Getty Images

Sperkspekingurinn Chris Sutton, fyrrverandi leikmaður liða á borð við Blackburn Rovers og Chelsea, segir að gagnrýni Roy Keane í garð norska framherjans Erling Braut Haaland hafi verið „ósanngjörn og algjört bull.“

Keane sparaði ekki stóru orðin frekar en fyrri daginn eftir markalaust jafntefli Manchester City og Arsenal í toppslag ensku úrvalsdeildarinnar síðastliðinn sunnudag. Þar sagði Keane meðal annars að þrátt fyrir að Haaland væri einn sá allra besti í heiminum fyrir framan markið þá þætti honum getustig framherjans í almennum leik vera á pari við leikmann í D-deild.

Fyrrverandi framherjinn Chris Sutton, sem á sínum tíma lék fyrir lið á borð við Blackburn Rovers, Chelsea og Celtic, segir gagnrýni Keane á hendur Haaland hins vegar vera ósanngjarna.

„Þetta var algjört bull og ósanngjarnt í garð Haaland,“ sagði Sutton í samtali við BBC í morgun. 

„Það hafa allir verið að lofa William Saliba og Gabriel [varnarmönnum Arsenal] allt tímabilið. Þegar Stefan Ortega [markvörður Manchester City] er að senda langar sendingar á Haaland þá eru þeir tveir líklega þeir bestu í að vinna í kringum snertinguna frá framherja. Þeir eru virkilega klókir í sínum varnarleik.“

„Hefði Haaland getað verið sterkari? Hefði hann getað verið klókari og hefði hann getað gert hlutina betur? Klárlega. En stundum mætirðu frábærum varnarmönnum, sem Saliba og Gabriel voru á sunnudaginn,“ bætti Sutton við.

„Þeir geta verið svo nálægt sóknarmanninum af því að þeir vita alltaf að hinn kemur í hjálpina. Það er það sem gerir þetta svo erfitt fyrir Haaland og svo er þetta ekki það sem Haaland var keyptur til Manchester City til að gera.“
Fleiri fréttir

Sjá meira


×