Innlent

„Hvergi í verk­lags­reglum að við séum að reka fólk í burtu“

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Gosi segist hafa beðið Katrínu afsökunar vegna málsins. 
Gosi segist hafa beðið Katrínu afsökunar vegna málsins.  Vilhelm/Aðsend

Gosi Ragnarsson framkvæmdastjóri Superjeep harmar að starfsmenn fyrirtækisins séu sakaðir um að hafa hrakið burt fjölskyldu í norðurljósaleiðangri síðasta sunnudag. 

Katrín Harpa Ásgeirsdóttir greindi frá leiðinlegum samskiptum við ferðaþjónustufyrirtækið Superjeep síðastliðið sunnudagskvöld þegar fjölskylda hennar hugðist skoða Norðurljósin skammt frá Litlu Kaffistofunni.

Hún sagði leiðsögumenn fyrirtækisins hafa rekið þau í burtu frá vegi í almannaeigu og sakað fjölskylduna um að reyna að elta leiðsögutúrinn. 

Í samtali við fréttastofu segist Gosi vera búin að biðja Katrínu afsökunar og geri það hér með aftur. Hann áréttar að hvorki Superjeep né önnur ferðaþjónustufyrirtæki eigi nokkurn frekari rétt en aðrir á náttúrunni eða vegum hér á landi. 

Reyna að hafa hópa út af fyrir sig

Gosi segir hópinn hafa verið staðsettan á átta kílómetra löngum vegi þegar einn starfsmanna hans hafði afskipti af fjölskyldunni. 

„Þá fer hann og biður þau um að færa sig af því að þau séu alveg ofan í hópnum. Við reynum eins og við getum, bæði til þess að halda vel utan um hópinn okkar og líka út frá ljósmengun, að hafa hópinn okkar svolítið sér,“ segir Gosi. Hann segir fjölskylduna hafa verið beðna um að færa sig fimmtíu til hundrað metra í burtu. 

„Við reynum bara að hafa okkar hópa út af fyrir sig eins og hægt er. En það er hvergi í verklagsreglum okkar að við séum að reyna að reka fólk í burtu,“ segir Gosi.

Hann segir að áður hafi komið upp samtöl þar sem fólk er beðið um að færa sig en það ekki verið mikið mál. „En ef það hafa komið upp hnökrar í samskiptum við fólk eða í ferðum þá reynum við að læra af þeim og gera betur næst,“ segir Gosi og ítrekar að honum þyki leiðinlegt að fór sem fór. 


Tengdar fréttir

Ljósadýrð á himni í kvöld

Það viðrar vel til norðurljósa í kvöld að sögn vakthafanda hjá Veðurstofu Íslands og búist er við því að litrík og sterk norðurljós prýði festinguna í kvöld.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×