Innlent

Heilsu­gæslan tekur al­farið við svörun í númerinu 1700

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Sigríður Dóra segir Upplýsingamiðstöðina ölfuga en þar starfa tugir manna.
Sigríður Dóra segir Upplýsingamiðstöðina ölfuga en þar starfa tugir manna. Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins

Heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu hefur nú alfarið tekið yfir svörun í síma 1700, sem áður var sinnt af Læknavaktinni. Neyðarsíminn verður áfram 112 og er fólki bent á að hringja í það númer ef þörf krefur.

„Þetta er bara þáttur í því að samþætta þjónustuna,“ segir Sigríður Dóra Magnúsdóttir, forstjóri Heilsugæslunnar um breytinguna. Hún sé þó ekki nýtilkomin heldur hafi starfsfólk heilsugæslunnar verið að svara í 1700 símann ásamt Læknavaktinni síðasta ár.

Svörun við fyrirspurnum almennings verður nú alfarið sinnt af starfsfólki Upplýsingamiðstöðvar Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins en hægt er að hafa samband í gegnum síma og netspjall.

Þá heldur Upplýsingamiðstöðin utan um þekkingarvef Heilsuveru, þar sem almenningur getur sótt sér fróðleik um alls konar sjúkdóma, einkenni og úrræði.

Sigríður Dóra segir Upplýsingamiðstöðina byggja á niðurstöðum vinnuhóps sem skipaður var af heilbrigðisráðuneytinu en markmiðið sé að bæta og samþætta svörun við fyrirspurnum almennings.

Unnið sé eftir nákvæmum ferlum og öll svör byggi á gagnreyndum upplýsingum úr gagnabönkum.

Svarað er í númerinu 1700 allan sólahringinn auk þess sem netspjallið er opið frá 8 til 22 alla daga vikunnar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×