Enski boltinn

Ber engan kala til Jürgen Klopp

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jürgen Klopp þakkar fyrir leikinn á Old Trafford skömmu áður en hann fór viðtalið fræga.
Jürgen Klopp þakkar fyrir leikinn á Old Trafford skömmu áður en hann fór viðtalið fræga. Getty/Robbie Jay Barratt

Danski fjölmiðlamaðurinn Niels Christian Frederiksen mun ekki erfa það við tapsáran knattspyrnustjóra Liverpool að þýski stjórinn rauk út úr miðju viðtali við hann og hraunaði síðan yfir hann.

Jürgen Klopp var mjög ósáttur með spurningu sem hann fékk frá Frederiksen um skort á ákefð hjá Liverpool mönnum undir lok framlengingarinnar.

„Frekar heimskuleg spurning,“ byrjaði Klopp á að segja en hélt síðan áfram og ræddi um leikjaálag Liverpool síðustu vikurnar.

Þegar blaðamaðurinn byrjaði síðan á næstu spurningu var líkt og Klopp hafi fengið nóg og gekk hann á brott án þess að svara spurningunni.

„Þú ert greinilega ekki í góðu formi og ég hef ekki þolinmæði fyrir þér,“ svaraði Klopp áður en hann hélt á brott. Blaðamaðurinn stóð eftir hissa. Frederiksen gerði lítið úr viðtalinu í samtalið við Tipsbladet.

„Hann hélt áfram að öskra á mig um leið og hann gekk út ganginn. Ég elti hann af því að mér fannst þetta mjög skrýtið,“ sagði Frederiksen.

„Ég skrifa þetta bara á mikinn pirring og svakalegt svekkelsi. Hvernig þeir töpuðu á móti Manchester United eftir að hafa komist tvisvar yfir og höfðu átt að vera búnir að gera út um leikinn,“ sagði Frederiksen.

„Ég sé engin vandamál og það verður ekkert vesen af minni hálfu í framtíðinni. Ég get ekki séð það,“ sagði Frederiksen.

„Þegar ég tek viðtal við hann aftur við verðum enn góðir vinir, svona hvað fagmennskuna varðar. Ég held ekki að hann erfi þetta við mig og ég ber engan kala til hans,“ sagði Frederiksen.

„Hann var ekki að segja að ég væri feitur. Í fyrsta lagi er ég ekki feitur og hann myndi aldrei segja það. Klopp er ekki þannig,“ sagði Frederiksen..

„Hann meinti þetta ekki þannig. Hann er ekki vondur maður. Hann var að meina að ég ætti ekki rétt á því að spyrja svona spyrningar. Það var ekkert annað,“ sagði Frederiksen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×