Fótbolti

Fimm dagar í EM-umspil: Raðað inn mörkum gegn Ísrael en aldrei unnið

Sindri Sverrisson skrifar
Hákon Arnar Haraldsson hóf landsliðsferil sinn á því að mæta Ísrael, sumarið 2022.
Hákon Arnar Haraldsson hóf landsliðsferil sinn á því að mæta Ísrael, sumarið 2022. vísir/Hulda Margrét

Íslenska karlalandsliðið í fótbolta þekkir Ísraelsmenn, mótherja Íslands í undanúrslitum EM-umspilsins, afar vel.

Liðin voru nefnilega saman í riðli í Þjóðadeildinni árið 2022, og mættust í tveimur leikjum í júní. Báðir leikir fóru 2-2. Liðin enduðu í tveimur efstu sætum síns riðils, Ísrael þó ofar, og sá árangur var það sem að lokum skilaði þeim í þetta umspil um eitt af síðustu lausu sætunum á EM í Þýskalandi.

Þegar liðin mættust síðast lék Ísland undir stjórn Arnars Þórs Viðarssonar, og fór fyrri leikurinn fram í Ísrael. Shon Weissman tryggði Ísrael stig með marki seint í leiknum, eftir að Þórir Jóhann Helgason (með sínu fyrsta landsliðsmark) og Arnór Sigurðsson höfðu komið Íslandi í 2-1.

Fyrsta mark leiksins kom eftir góðan undirbúning Manor Solomon, núverandi leikmanns Tottenham, en hann missir af leiknum núna vegna meiðsla.

Leikurinn í Ísrael var jafnframt fyrsti landsleikur Hákons Arnars Haraldssonar, sem þá var nýorðinn nítján ára gamall. Hann var einnig í liðinu á Laugardalsvelli nokkrum dögum síðar þegar Ísland gerði aftur 2-2 jafntefli við Ísrael.

Aftur skoraði Þórir Jóhann í leiknum, og kom Íslandi í 2-1, en Jón Dagur Þorsteinsson skoraði fyrsta mark leiksins á níundu mínútu, í kjölfarið á löngu innkasti Harðar Björgvins Magnússonar. Jöfnunarmark Ísraelsmanna kom eftir myndbandsskoðun, en boltinn þótti hafa farið rétt yfir línuna áður en Rúnar Alex Rúnarsson varði.

Alfreð og Kolbeinn skoruðu í Tel Aviv

Liðin hafa alls mæst fimm sinnum og þó að Ísland hafi skorað tvö mörk í fjórum leikjanna þá hefur liðið aldrei fagnað sigri.

Fyrst mættust þjóðirnar í tveimur vináttulandsleikjum árið 1992, gerðu 2-2 jafntefli ytra og Ísrael vann svo 2-0 útisigur á Laugardalsvelli.

Þau mættust svo aftur í vináttulandsleik í Tel Aviv árið 2010, þar sem Ísrael vann 3-2 í leik þar sem Alfreð Finnbogason og Kolbeinn Sigþórsson skoruðu mörk Íslands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×