Erlent

Hand­teknir fyrir að fella tré sem leiddi til dauða

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Atvikið átti sér stað í Sorø á Sjálandi.
Atvikið átti sér stað í Sorø á Sjálandi. Sydsjællands og Lolland-Falsters Politi

Þrír menn hafa verið handteknir í Sorø á Sjálandi í Danmörku fyrir að hafa fellt tré sem hafnaði á bíl 55 ára manns með þeim afleiðingum að hann lést.

Politiken greinir frá því að lögreglan á gruni mennina um að hafa fellt tréð viljandi og þess vegna hafi þeir verið handteknir. Ekki liggur fyrir hvort eitthvað samband sé á milli hins látna og hinna þriggja handteknu.

„Hann hefur eflaust verið á vitlausum stað á vitlausum tíma. Það hafði tragískar afleiðingar,“ hefur TV 2 eftir Kim Kliver yfirlögregluþjóni.

Mennirnir þrír sem eru í haldi lögreglu eru ungir að árum en engar nánari upplýsingar um þá liggja fyrir.

Einn til viðbótar var handtekinn í tengslum við málið samkvæmt færslu sem suðursjálenska lögreglan birti á síðu sína á samfélagsmiðlinum X, áður Twitter. Aðild hans að málinu er þó óljós.

„Rannsóknin heldur áfram og við getum ekki tjáð okkur frekar um málið að svo stöddu.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×