Erlent

Danir skuli forðast fjölda­samkomur vegna hryðjuverkahættu

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Fleiri þjóðir hafa einnig komið svipuðum skilaboðum til sinna ríkisborgara í landinu.
Fleiri þjóðir hafa einnig komið svipuðum skilaboðum til sinna ríkisborgara í landinu. Getty/Valery Sharifulin

Danska utanríkisráðuneytið hefur varað danska ríkisborgara búsetta í Moskvu við að sækja fjöldasamkomur í borginni um helgina. Í varúðartilkynningu til þeirra kemur fram að aukin hætta sé á árásum á fjöldasamkomur í Moskvu. Ekki liggur þó fyrir hvað býr á baki þessum viðvörunum.

DR greinir frá því að danska utanríkisráðuneytið hafi miðlað skilaboðum frá bandaríska sendiráðinu þar í landi varðandi aukna hættu á árásum á fjöldasamkomur í Moskvu um helgina. Forðast skuli staði þar sem margir koma saman, sérstaklega tónleika.

Bandaríska sendiráðið hafi einnig komið slíkum skilaboðum til sinna ríkisborgara á svæðinu litlu fyrr.

DR láðist ekki að vita hvað búi að baki þessari auknu hættu þrátt fyrir samskipti við utanríkisráðuneytið og danska sendiráðið í Moskvu. Utanríkisráðuneytið hafi sagt að hvorki danska sendiráðið né ráðuneytið sjálft geti tjáð sig frekar en það sem komi fram í tilkynningunni.

Afstýrðu hryðjuverkaárás stuttu fyrir tilkynninguna

„Bandaríska sendiráðið greinir frá því að það sé aukin hætta á árásum á stórar samkomur í Moskvu um helgina. Forðist staði þar sem er margt fólk, sérstaklega tónleika. Fylgstu með öryggisstöðunni á miðlum eða í gegnum hótelið þitt. Utanríkisráðuneytið varar gegn ferðum til Rússlands.“ Svona hljóðaði tilkynningin frá utanríkisráðuneyti Danmerkur.

Samkvæmt Reuters barst viðvörunin frá bandaríska sendiráðinu í Moskvu fáeinum tímum áður en FSB, öryggisþjónusta Rússlands, greindi frá því að hún hefði afstýrt árás sem átti að framkvæma á sýnagógu í Moskvu. Ekki liggur fyrir hvort málin séu tengd.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×