Salah hefur verið að glíma við tognun aftan í læri. Hann meiddist í Afríkukeppninni í janúar og svo aftur eftir að hann byrjaði að spila á nýjan leik.
Salah gæti tekið þátt í fyrri leik Liverpool á móti Sparta Prag í sextán liða úrslitum Evrópudeildarinnar í kvöld. Klopp var spurður út í hann á blaðamannafundi fyrir leikinn.
„Mo Salah ferðaðist með okkur. Hann er búinn að æfa með okkur í tvo daga og er fullur af orku,“ sagði Jürgen Klopp.
"So good that he's back"
— Sky Sports News (@SkySportsNews) March 7, 2024
Jurgen Klopp on Mohamed Salah's return to the Liverpool squad pic.twitter.com/Zh0HcKrp5E
„Við viljum fara varlega en það er mikið í gangi hjá okkur á þessum tímapunkti á tímabilinu. Við viljum nota hann og þetta eru því góðar fréttir,“ sagði Klopp.
Salah hefur skorað nítján mörk í öllum keppnum á leiktíðinni en hefur ekki spilað síðan 17. febrúar þegar hann kom inn á sem varamaður og skoraði í 4-1 sigri á Brentford.
„Það var óheppilegt eftir að hann var búinn að vera svona lengi frá. Hann átti ótrúlegan leik á móti Brentford en svo datt hann út. Svona er þetta bara,“ sagði Klopp.
Klopp segir að það sé ekki hans ákvörðun hvort Salah taki þátt í komandi landsleikjaglugga.
„Það er ákvörðun sem verður tekinn annars staðar. Sjáum til hversu mikið hann getur spilað með okkur núna. Ég kem ekki nálægt þeirri ákvörðun,“ sagði Klopp.