Fótbolti

Balot­elli sprengdi púður­kerlingu inn í búnings­klefa

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mario Balotelli var vissulega að slá á létta strengi en þarf að finna hættuminni og skynsamari leiðir til þess.
Mario Balotelli var vissulega að slá á létta strengi en þarf að finna hættuminni og skynsamari leiðir til þess. EPA-EFE/JEAN-CHRISTOPHE BOTT

Ítalski knattspyrnumaðurinn Mario Balotelli kemst oftast í fréttirnar þessa dagana fyrir eitthvað annað en frammistöðu sína inn á vellinum. Nú er enn eitt dæmið um það.

Balotelli hefur flakkað milli félaga allan sinn feril en nú er hann leikmaður tyrkneska félagsins Adana Demirspor. Áður var hann hjá Sion í Sviss og þar á undan hjá Monza á Ítalíu. Það eru liðin meira en sjö ár síðan hann yfirgaf Liverpool.

Balotelli kom sér í fréttirnar í vikunni þegar það náðist á myndband er hann kveikti í púðurkerlingu inn í búningsklefanum og kastaði henni út á gólfið þar sem hálfnaktir liðsfélagar hans voru að jafna sig eftir leik.

Mörgum náttúrulega krossbrá eins og sjá má hér fyrir neðan. Það þarf síðan ekki að taka fram slysahættuna við slíka sprengingar enda fullt af eldsmat í klefanum auk þess sem leikmenn geta slasast springi púðurkerlingin of nálægt þeim.

Balotelli var vissulega að slá á létta strengi en þarf að finna hættuminni og skynsamari leiðir til þess.

Balotelli hefur skorað fimm mörk í níu deildarleikjum með Adana Demirspor á þessu tímabili.

Atvikið má sjá hér fyrir neðan. Ef færslan birtist ekki er gott að endurhlaða fréttina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×