Enski boltinn

Cantona hefði getað spilað fyrir Liverpool

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eric Cantona var frábær á fimm tímabilum með Manchester United.
Eric Cantona var frábær á fimm tímabilum með Manchester United. Getty/Anton Want/

Graeme Souness var knattspyrnustjóri Liverpool þegar Eric Cantona kom inn í ensku úrvalsdeildina. Það er honum að kenna að Cantona spilaði ekki fyrir Liverpool heldur fór frekar í Leeds. Cantona átti síðan risastóran þátt í velgengni Manchester United á tíunda áratug síðustu aldar.

Cantona er elskaður og dáður meðal stuðningsmanna Manchester United og ekki að ástæðulausu enda átti hann fimm mögnuð tímabil hjá félaginu þar sem hann vann sex stóra titla.

Souness sagði frá því í viðtali hjá Talksport að honum hafi verið boðið að fá Cantona til Liverpool á sínum tíma.

Michel Platini kom á skrifstofuna til hans eftir Evrópuleik Liverpool og franska liðsins Auxerre og sagðist vera með frábæran leikmann fyrir hann. Hér fyrir neðan segir Souness söguna.

Platini sagði að Cantona hefði verið til vandræða í franska fótboltanum en að hann væri frábær leikmaður. Cantona fékk mánaðarbann í Frakklandi fyrir að henda bolta í dómara og það var síðan lengt í tvo mánuði eftir að hinn skapbráði Cantona kallaði alla í aganefndinni hálfvita.

Cantona tilkynnti þá að hann væri hættur í fótbolta en Platini, sem var landsliðsþjálfari Frakka á þeim tíma, vildi finna nýtt lið fyrir hann utan Frakklands. Platini sannfærði Cantona um að hætta við að hætta og reyndi að koma honum að í enska boltanum.

Souness sagði frá því að hann hefði hafnað því að fá Cantona af því að hann vildi ekki fleiri vandræðagemlinga í klefann hjá Liverpool.

Cantona endaði því hjá Leeds og varð enskur meistari á fyrsta ári. Leeds seldi hann óvænt til Manchester United þar sem Cantona vann fjóra meistaratitla á fimm tímabilum. Eina tímabilið sem United vann ekki með hann innanborðs var þegar Cantona var dæmdur í átta mánaða bann fyrir að sparka niður áhorfanda í janúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×