Erlent

Aldrei fleiri lagðir inn á Eng­landi vegna matar­tengdra baktería

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Salmonella ræktuð í tilraunadisk.
Salmonella ræktuð í tilraunadisk. Getty/Houston Chronicle/Mayra Beltran

Aldrei hafa fleiri greinst með matvælatengdar sýkingar á Englandi heldur en í fyrra. Alls voru 1.468 lagðir inn vegna salmonellu frá apríl 2022 til mars 2023 og þá lögðust yfir 4.340 inn vegna kampýlóbakter-sýkingar.

Deilt eru um orsakir aukningarinnar en á meðan yfirvöld segja hana tilkomna vegna aukins eftirlits og skráningar segja sérfræðingar að lakara eftirlit með matvælum, meðal annars við innflutning þeirra í kjölfar Brexit, eigi þátt að máli.

Tim Lang, prófessor í matvælastefnumótun við City University, segir tölurnar ekki koma á óvart og að tilvikum muni fjölga þar til almenningur hefur fengið nóg. Hann segir að fólk ætti að spyrja sig: „Af hverju ætti ég að spila rússneska rúllettu með mat?“

Lang segir að rekja megi aukninguna til minni áhuga stjórnvalda á málaflokknum og minna regluverks er varðar matvælahreinlæti og -eftirlit. Ástandið hafi versnað eftir að Bretar gengu úr Evrópusambandinu og vegna niðurskurðar.

Innlagnir af völdum salmonellu voru fæstar árið 2013, þegar þær voru 834. Áratug seinna hefur þeim fjölgað um 76 prósent. Um 30 prósent sýkinga eru taldar tengjast ferðalögum.

Lang segir að fyrir 40 árum hafi mikil áhersla verið lögð á heilnæmi matvæla, meðal annars vegna kúariðu. Ráðist hafi verið í átak til að herða á reglum í Bretland og Evrópu. Þetta regluverk hafi hins vegar verið veikt á síðustu 15 árum.

Ítarlega umfjöllun um málið má finna hjá Guardian.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×