Erlent

Banda­ríkin henda hjálpar­gögnum úr lofti yfir Gasa

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Mynd af hjálpargögnum jórdanskra yfirvalda sem kastað er út úr flugvél yfir Gasa. Gagnrýnendur benda á að leiðin sé afar óskilvirk.
Mynd af hjálpargögnum jórdanskra yfirvalda sem kastað er út úr flugvél yfir Gasa. Gagnrýnendur benda á að leiðin sé afar óskilvirk. EPA-EFE/MOHAMMED SABER

Bandaríkin hyggjast henda hjálpargögnum úr lofti yfir Gasa svæðið á næstu dögum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Joe Biden Bandaríkjaforseta. Erfiðlega hefur gengið að koma hjálpargögnum til Gasa undanfarna daga, vikur og mánuði en gagnrýnendur segja aðferðina lélega og ónákvæma.

Í umfjöllun Guardian um málið kemur fram að afar erfiðlega hafi gengið að koma hjálpargögnum til Palestínumanna. Hungursneyð og örbirgð ríki á Gasa ströndinni eftir hernað Ísraelsmanna undanfarna mánuði.

Þá kemur fram að Ísraelsmenn verði fyrir auknum þrýstingi á alþjóðavettvangi um að rannsaka dráp hundrað almennra borgara á Gasa sem létust á fimmtudaginn í skothríð Ísraelshers þegar mannskari þusti að hjálpargögnum sem nýkomin voru á Gasa svæðið.

Joe Biden Bandaríkjaforseti tilkynnti um ákvörðun sína um að koma hjálpargögnum til Gasa úr lofti eftir fund með Giorgia Meloni forsætisráðherra Ítalíu. Hann segir hræðilegt að horfa upp á mannsfallið.

„Fólk er svo örvæntingarfullt að saklaust fólk lenti á milli í hræðilegu stríði og getur ekki fætt fjölskyldur sínar. Þið sáuð viðbrögðin þegar þeir reyndu að koma hjálpargögnum þangað,“ sagði Joe Biden.

Hann segir Bandaríkin verða að gera meira og ætli að gera meira. „Á næstu dögum ætlum við með vinum okkar frá Jórdaníu og öðrum að fljúga inn hjálpargögnum til Gasa.“

Fram kemur í frétt Guardian að jórdönsk yfirvöld auk franskra yfirvalda hafi þegar nýtt þessa leið til að koma hjálpargögnum á Gasa. Gagnrýnendur hafa hinsvegar bent á að leiðin sé afar dýr og að afar erfitt, nánast óhugsandi, sé að tryggja að hjálpargögnin rati í réttar hendur þegar þau eru flutt með þessum hætti.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×