Enski boltinn

Hetja Liverpool í vikunni var boltastrákur á Anfield fyrir stuttu síðan

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jayden Danns fagnar öðru marka sinna á móti Southampton í enska bikarnum á miðvikudagskvöldið.
Jayden Danns fagnar öðru marka sinna á móti Southampton í enska bikarnum á miðvikudagskvöldið. Getty/Alex Livesey

Það vissu örugglega ekki margir stuðningsmenn Liverpool hver Jayden Danns væri þegar nýtt ár gekk í garð hvað þá annað fótboltaáhugafólk.

Danns stimplaði sig inn á einni ótrúlegri viku. Hann spilaði sinn fyrsta leik í ensku úrvalsdeildinni þegar hann lagði upp mark á móti Luton Town í síðustu viku, kom inn á sem varamaður þegar Liverpool tryggði sér enska deildabikarinn á Wembley á sunnudaginn og skoraði síðan tvö mörk í bikarsigri á Southampton á Anfield í þessar viku.

Danns er aðeins átján ára gamall síðan um miðjan janúar og hann er borinn og barnfæddur í Liverpool.

Danns gekk til liðs við Liverpool þegar hann var aðeins átta ára gamall. Hann fór í gegnum allt unglingastarf félagsins.

Það vakti síðan athygli þegar menn grófu upp skemmtilega mynd af Liverpool leikmönnum að fagna marki á Anfield þar sem Danns, sem boltastrákur, fylgdist með rétt hjá.

Þessi mynd var tekin fyrir aðeins 21 mánuði síðan. Jú, hlutirnir geta verið fljótir að gerast í fótboltanum. Men in Blazers síðan vakti athygli á þessu eins og sjá má hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×