Fótbolti

Vill að Fulham biðjist af­sökunar á TikTok-myndbandi af Bruno Fernandes

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Bruno Fernandes virtist reyna ýmislegt til að fiska aukaspyrnu í leik Manchester United og Fulham um liðna helgi.
Bruno Fernandes virtist reyna ýmislegt til að fiska aukaspyrnu í leik Manchester United og Fulham um liðna helgi. Ash Donelon/Manchester United via Getty Images

Erik ten Hag, knattspyrnustjóri Manchester United, segir að Fulham eigi að biðjast afsökunar á myndbandi sem birtist á TikTok-reikningi félagsins þar sem gert er grín að Bruno Fernandes, leikmanni United.

Myndbandið sýnir Fernandes falla til jarðar í 2-1 tapi United gegn Fulham og halda um löppina á sér eins og hann sé meiddur áður en hann stendur fljótt upp eftir að hann sér sókn Manchester United heldur áfram.

Tónlistin sem fylgir myndbandinu er nokkuð glaðleg og samfélagsmiðlateymi Fulham skrifar undir myndbandið að þau voni að það sé í lagi með leikmanninn, eða: „So glad he's ok...“

Ljóst er að um grín er að ræða hjá Fulham, en Erik ten Hag virðist ekki hafa mikinn húmor fyrir myndbandinu.

„Þetta er ekki í lagi. Þetta er algjörlega ekki í lagi og hreint út sagt rangt. Þau ættu að biðjast afsökunar á þessu,“ sagði Ten Hag á blaðamannafundi þar sem hann var spurður út í myndbandið.

Þá segir Hollendingurinn að leikmenn deildarinnar geri í því að brjóta á miðjumanninum Fernandes.

„Mér fannst þetta klárlega vera brot. En þetta var túlkað öðruvísi í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum svo að hægt væri að kenna honum um þetta. Dómararnir ættu að hugsa um að vernda hann.“

„Hann er mjög ástríðufullur leikmaður og mjög skapandi. Hann hefur búið til flest færi í deildinni. En andstæðingarnir sjá skotmark, sérstaklega eftir þennan leik á laugardaginn. Mér finnst að dómararnir þurfi að vernda hann.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×