Casemiro sótti sigurinn úr Skírisskógi

Það var miðjumaðurinn margreyndi, Carlos Casemiro, sem tryggði United sigur í kvöld
Það var miðjumaðurinn margreyndi, Carlos Casemiro, sem tryggði United sigur í kvöld Matthew Ashton - AMA/Getty Images

Manchester United tryggði sig áfram í átta liða úrslit FA bikarsins á Englandi með 1-0 sigri gegn Nottingham Forest. Casemiro skoraði eina mark leiksins á 89. mínútu.

Leikurinn fór af stað með látum þegar Antony skaut þrumuskoti sem hafnaði í þverslánni. Manchester United fékk fleiri mjög fín færi en tókst ekki að koma boltanum í netið. Nottingham Forest nýttu styrkleika sína vel og brutust upp í hraðar skyndisóknir.

Þrátt fyrir fjöldann allan af marktækifærum á báðum hliðum vallarins var staðan markalaus þar til á lokamínútu leiksins.

Áfram herjuðu liðin að marki hvors annars án árangurs í seinni hálfleik. Forest menn byrjuðu betur þegar komið var út úr búningsherbergjunum en Manchester United var ekki lengi að lifna aftur við og skapaði sér mörg hættuleg færi.

Þá var það miðjumaðurinn margreyndi, Casemiro, sem skoraði sigurmarkið fyrir Manchester United á 89. mínútu.

Markið kom eftir vel útfærða aukaspyrnu Bruno Fernandes, sem kom boltanum á nærstöngina í hlaupaleið Casemiro og þaðan rataði boltinn í netið.

Manchester United er þar með komið áfram í 8-liða úrslit FA bikarsins og mætir Liverpool á heimavelli í næstu umferð.

Bein lýsing

Leikirnir


    Fleiri fréttir

    Sjá meira