Gallagher tryggði Chelsea sigur í uppbótartíma

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Conor Gallagher var hetja Chelsea í kvöld
Conor Gallagher var hetja Chelsea í kvöld Vísir/Getty Images

Chelsea vann 3-2 gegn Leeds United í 5. umferð FA bikarsins á Englandi. Connor Gallagher skoraði sigurmarkið í uppbótartíma og skaut Chelsea áfram í 8-liða úrslit þar sem þeir munu mæta Leicester City.

Chelsea gerði slæm mistök og lenti undir snemma í leiknum. Markið kom á 8. mínútu þegar Chelsea liðið reyndi að spila sig upp úr öftustu línu en misstu boltann frá sér. Mateo Joseph fékk boltann frá Jaidon Anthony og kláraði færið af öryggi.

Nicolas Jackson jafnaði metin fyrir Chelsea skömmu síðar, þegar um stundarfjórðungur var liðinn af leiknum. Chelsea spilaði boltanum vel milli manna áður en Moises Caicedo stakk honum inn fyrir á Nicolas Jackson sem kláraði úr þröngu færi milli fóta markmannsins.

Mikhailo Mudryk kom Chelsea svo yfir á 37. mínútu. Markið kom eftir gott spil upp hægri kantinn þar sem Malo Gusto stakk boltanum í gegn á Raheem Sterling sem lagði hann út á Mudryk og þaðan í netið.

Á 59. mínútu var Mateo Joseph svo aftur á ferðinni fyrir gestina frá Leeds. Aftur fékk hann boltann frá Jaidon Anthony, í þetta sinn var það há fyrirgjöf sem Joseph skallaði af yfirvegun í netið.

Ekki þurfti þó að grípa til framlengingar því Conor Gallagher tryggði Chelsea sigurinn með marki í uppbótartíma eftir góðan undirbúning Enzo Fernandez.

Chelsea er þar með komið í átta liða úrslit FA bikarsins og mætir Leicester helgina 16.-17. mars næstkomandi.

Bein lýsing

Leikirnir


    Fleiri fréttir

    Sjá meira