Fótbolti

Leicester í átta liða úr­slit eftir framlengdan leik

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Issahaku Fatawu fagnar með liðsfélögum sínum eftir að hafa komið Leicester í forystu.
Issahaku Fatawu fagnar með liðsfélögum sínum eftir að hafa komið Leicester í forystu. Michael Regan/Getty Images

B-deildarlið Leicester er á leið í átta liða úrslit ensku bikarkeppninnar eftir 1-0 útisigur gegn úrvalsdeildarliði Bournemouth í framlengdum leik í kvöld.

Leicester, sem trónir á toppi ensku 1. deildarinnar, hafði tapað tveimur leikjum í röð fyrir leik kvöldsins. Liðið gerði þó vel gegn Bournemouth, sem situr í 14. sæti ensku úrvalsdeildarinnar.

Það voru heimamenn í Bournemouth sem voru sterkari aðilinn í leik kvöldsins, en þrátt fyrir það tókst liðinu ekki að brjóta ísinn. Ekki tókst gestunum í Leicester það heldur í venjulegum leiktímaog því þurfti að grípa til framlengingar til að skera úr um sigurvegara.

Þar var það Ganverjinn Issahaku Fatawu sem reyndist hetja Leicester þegar hann tryggði liðinu sigur með marki á seinustu mínútu fyrri hálfleiks framlengingarinnar eftir stoðsendingu frá Kelechi Iheanacho. 

Leicester verður því í pottinum þegar dregið verður í átta liða úrslit ensku bikarkeppninnar á morgun, en Bournemouth er úr leik.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×