Haaland og De Bruyne með sýningu er meistararnir flugu á­fram

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Erling Haaland skoraði ekki nema fimm mörk fyrir Manchester City í kvöld, fjögur þeirra eftir stoðsendingu frá Kevin De Bruyne.
Erling Haaland skoraði ekki nema fimm mörk fyrir Manchester City í kvöld, fjögur þeirra eftir stoðsendingu frá Kevin De Bruyne. Shaun Botterill/Getty Images

Ríkjandi meistarar Manchester City eru komnir í átta liða úrslit ensku bikarkeppninnar eftir öruggan 6-2 sigur gegn Luton í úrvalsdeildarslag í kvöld. Erling Haaland og Kevin De Bruyne hlóðu í sýningu.

Norðmaðurinn Erling Haaland kom gestunum í Manchester City yfir strax á þriðju mínútu leiksins eftir stoðsendingu frá Kevin De Bruyne og það sama var uppi á teningnum stundarfjórðungi síðar þegar De Bruyne lagði upp annað mark liðsins fyrir Haaland.

Þeir félagar voru hvergi nærri hættir og á 40. mínútu fullkomnaði Haaland þrennuna eftir þriðju stoðsendinguna frá Belganum.

Flestir bjuggust líklega við að þarna væru úrslitin ráðin, en heimamenn í Luton gáfust ekki upp og Jordan Clark minnkaði muninn með glæsilegu marki á seinustu mínútu venjulegs leiktíma í síðari hálfleik.

Clark bætti svo öðru marki sínu við á 52. mínútu, minnkaði muninn í 3-2 og gaf heimamönnum von um ótrúlega endurkomu. Sú von varð þó að engu þremur mínútum síðar þegar Erling Haaland skoraði fjórða mark sitt og fjórða mark City, enn eina ferðina eftir stoðsendingu frá Kevin De Bruyne.

Örfáum mínútum síðar var staðan svo orðin 5-2 þegar Haaland skoraði sitt fimmta mark, en í þetta sinn var það Bernardo Silva sem átti stoðsendinguna. Það var svo Mateo Kovacic sem rak seinasta naglann í kistu Luton þegar hann skoraði sjötta mark meistaranna á 72. mínútu og þar við sat. Niðurstaðan því 6-2 sigur Manchester City sem er á leið í átta liða úrslit á kostnað Luton sem situr eftir með sárt ennið.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira