Fótbolti

Enn laus sæti á leikinn um hvort Ís­land til­heyri elítunni

Sindri Sverrisson skrifar
Það er mikið undir hjá íslenska landsliðinu sem spilar á Kópavogsvelli í dag.
Það er mikið undir hjá íslenska landsliðinu sem spilar á Kópavogsvelli í dag. vísir/Diego

Enn er hægt að fá miða á leikinn mikilvæga sem kvennalandslið Íslands í fótbolta spilar við Serbíu á Kópavogsvelli í dag. Leiktíminn er óvenjulegur en flautað er til leiks klukkan 14:30.

Leikið er snemma þar sem að flóðljósin á Kópavogsvelli standast ekki kröfur UEFA. Eini völlurinn á Íslandi með ljósum sem standast þær kröfur er Laugardalsvöllur, sem ekki er leikhæfur á þessum tíma árs.

Nokkuð milt veður er miðað við árstíma og því ljóst að leikurinn mun geta farið fram en um er að ræða úrslitaleik um það hvort að Ísland eða Serbía verður með í A-deild Þjóðadeildarinnar í ár, með bestu liðum Evrópu. 

Eftir 1-1 jafntefli í fyrri leiknum þarf Ísland sigur í dag, í venjulegum leiktíma eða þá í framlengingu eða vítaspyrnukeppni.

Sæti í A-deild er afar mikilvægt því aðeins lið úr A-deild geta tryggt sig beint inn í lokakeppni EM sem fram fer í Sviss á næsta ári. Og liðin í A-deild sem ekki komast beint á EM eru örugg um að fara í umspil, og eiga þar auðveldari leið fyrir höndum en lið úr B-deild.

Miðasala á leikinn er á Tix.is og samkvæmt lauslegri talningu blaðamanns voru um ellefuleytið í dag enn 273 sæti laus í nýju stúkunni á Kópavogsvelli. Miðaverð er 2.500 krónur fyrir fullorðna og 750 krónur fyrir börn 16 ára og yngri.

Leikurinn hefst eins og fyrr segir klukkan 14:30 og verður í beinni textalýsingu á Vísi.


Tengdar fréttir

Svona var blaðamannafundurinn fyrir seinni Serbaleikinn

Vísir var með beina útsendingu og textalýsingu frá blaðamannafundi KSÍ fyrir seinni leik Íslands og Serbíu í umspili um það hvort liðið heldur sér í A-deild Þjóðadeildar kvenna í fótbolta.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×