Fótbolti

Fékk á sig tvö víti og lét reka sig af velli í ó­trú­legum sigri

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Sverrir Ingi í leik með Midtjylland.
Sverrir Ingi í leik með Midtjylland. Twitter@fcmidtjylland

Miðvörðurinn Sverrir Ingi Ingason átti eftirminnilegt kvöld þegar lið hans Midtjylland vann ótrúlegan 3-2 sigur á AGF í dönsku úrvalsdeild karla í knattspyrnu í kvöld.

Sverrir Ingi var sem fyrr í byrjunarliði Midtjylland þegar liðið sótti AGF heim. Mikael Neville Anderson var í byrjunarliði heimamanna og átti eftir að stríða gestunum töluvert.

Sverrir Ingi braut af sér innan vítateigs strax á 7. mínútu og hlaut að launum gult spjald sem og vítaspyrna var dæmd. Úr henni skoraði stormsenterinn Patrick Mortensen og heimamenn í AGF komnir 1-0 yfir.

Skömmu síðar skoruðu heimamenn aftur en markið dæmt af. Í uppbótartíma fyrri hálfleiks fengu gestirnir svo vítaspyrnu. Úr henni skoraði Cho Gue-Sung og staðan 1-1 í hálfleik. Lee Han-Beom kom svo Midtjylland yfir snemma í síðari hálfleik en örskömmu síðar fékk Paulinho sitt annað gula spjald og Midtjylland manni færri það sem eftir lifði leiks.

Þegar stundarfjórðungur lifði leiks fullkomnaði Sverrir Ingi martraðarleik sinn. Hann braut þá aftur af sér innan vítateigs, fékk aftur á sig vítaspyrnu og sitt annað gula spjald í leiðinni. Gestirnir voru því orðnir tveimur færri þegar Mortensen skoraði sitt annað mark af vítapunktinum.

Eftir það lögðust heimamenn í sókn í von um að vinna leikinn en á einhvern ótrúlegan hátt tókst gestunum að stela stigunum þremur þrátt fyrir að vera tveimur færri. Charles með sigurmarkið þegar sex mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma. Lokatölur í Árósum 2-3.

Eftir sigurinn er Midtjylland með 39 stig í 2. sæti, stigi minna en Bröndby sem situr á toppnum og þremur meira en meistarar FC Kaupmannahafnar sem eru sæti neðar með þremur stigum minna en leik til góða. AGF er í 5. sæti með 29 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×