Íslenski boltinn

Til­laga ÍTF felld og enginn stjórnar­maður KSÍ má starfa fyrir aðildar­fé­lag

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Orri Hlöðversson hefur sem formaður ÍTF átt sæti í stjórn KSÍ. Honum, eða staðgengli hans, verður nú meinuð stjórnarsetu hjá einhverju af aðildarfélögum KSÍ.
Orri Hlöðversson hefur sem formaður ÍTF átt sæti í stjórn KSÍ. Honum, eða staðgengli hans, verður nú meinuð stjórnarsetu hjá einhverju af aðildarfélögum KSÍ. vísir / vilhelm

Lagabreyting var gerð á 78. ársþingi Knattspyrnusambands Íslands. Héðan í frá má enginn stjórnarmaður KSÍ sitja í stjórn eða ráðum hjá aðildarfélögum sambandsins, en hingað til hafði fulltrúi Íslensks toppfótbolta verið undanskilinn þeim reglum. 

ÍTF lagði til lagabreytingu þess efnis að allt stjórnarfólk KSÍ mætti samhliða þeirri stjórnarsetu sitja í stjórnum eða ráðum hjá aðildarfélögum sambandsins.

Í rökstuðningi sínum sagði ÍTF núgildandi lög leiða til að þess að reynslumiklir aðilar séu ókjörgengnir. Lítil hætta væri á hagsmunaárekstrum því málefni einstakra félaga séu sjaldnast til umræðu stjórnar og öllu jafnan vísað til þar til bærra nefnda. 

KSÍ lagði allt aðra hugmynd fram á borð en þar var farið fram á að allir stjórnarmenn KSÍ séu óháðir aðildarfélögum sambandsins og felld yrði úr gildi sú regla að fulltrúi ÍTF sé undanskilinn. Það var sagt gert í samræmi við lýðræðislega og góða stjórnarhætti að undanskilja ekki einn aðila frá hæfisskilyrðum. 

Tillaga KSÍ var samþykkt með 124 atkvæðum með og 17 atkvæðum á móti. Tillaga ÍTF var felld með 35 atkvæðum með og 104 atkvæðum á móti. 

78. ársþing KSÍ fer fram í Úlfarsárdal. Kosið verður um nýjan formann síðar í dag og fylgst verður með gangi mála hér á Vísi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×