Enski boltinn

Dæmdur í árs fangelsi fyrir að höfuð­kúpu­brjóta mann

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ilias Chair í leik með Marokkó á HM í Katar undir lok árs 2022.
Ilias Chair í leik með Marokkó á HM í Katar undir lok árs 2022. Harry Langer/Getty Images

Ilias Chair, landsliðsmaður Marokkó og leikmaður QPR í ensku B-deildinni, hefur verið dæmdur í árs fangelsi af dómstól í Belgíu fyrir stórfellda líkamsárás. Höfuðkúpubraut hann mann með grjóti.

The Guardian greinir frá því að í belgískum fjölmiðlum komi fram að Chair hafi verið dæmdur í tveggja ára fangelsi, þar af er annað skilorðsbundið. Þá þarf hann að greiða fórnarlambinu tæplega tvær og hálfa milljón króna í skaðabætur.

Í frétt Guardian segir að hinn 26 ára gamli Chair hafi slegið mann sem kallaður er Neils T í dómsskjölunum með steini í höfuðið er hópslagsmál áttu sér stað árið 2020.

Chair – sem er fæddur í Belgíu - var hluti af hóp sem sigldi með kajak frá Belgíu til Frakklands. Ekki kemur fram hvernig en þeir lentu upp á kant við hóp af ferðamönnum sem voru á leið aftur í rútu sína í bænum Bazeilles.

Í dómnum segir að Neils sé enn að glíma við afleiðingar höfuðhöggsins en hann höfuðkúpubrotnaði og missti meðvitund. Chair neitaði sök en myndbandsupptaka staðfesti að hann hefði slegið Neils í höfuðið.

Chair hefur áfrýjað dómnum og á meðan það er ekki komin lokaniðurstaða í málið segir QPR að hann komi því til greina í leikmannahóp liðsins. Fyrir utan það hefur félagið sagt að það muni ekki tjá sig fyrr en lokaniðurstaða er komin í málið.

Leikmaðurinn hefur komið við sögu í 31 deildarleik hjá QPR á þessari leiktíð og komið með beinum hætti að níu mörkum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×