Fótbolti

Allir dómarar þurfa að gangast undir lyga­próf fyrir hvern leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Andrei Shevchenko er nýtekinn við sem forseti úkraínska knattspyrnusambandsins.
Andrei Shevchenko er nýtekinn við sem forseti úkraínska knattspyrnusambandsins. Getty/Kristy Sparow

Goðsögnin Andrei Shevchenko er nú forseti úkraínska knattspyrnusambandsins og hann er tilbúinn að fara nýstárlegar leiðir í baráttu sinni gegn spillingu í úkraínsku deildinni.

Hagræðing úrslita og almenn spilling er farin að setja mjög sterkan svip á deildina en þetta leggst ofan á það að það er náttúrulega stríð í gangi í landinu eftir innrás Rússa fyrir tveimur árum.

Shevchenko er ekki að bíða með það að taka stórar ákvarðanir í sínu nýja starfi.

Shevchenko réði til starfa fyrrum knattspyrnudómarann Kateryu Monzul sem fær það stóra verkefni að taka á aukinni spillingu í úkraínsku deildarkeppninni.

Það sem er þó sérstaklega fréttnæmt er hvaða leið þau ætla að fara í þessari baráttu. Hún er svo sannarlega óvenjuleg.

Hér eftir verða allir fótboltadómarar að gangast undir lygapróf fyrir hvern leik sem þeir dæma. Knattspyrnusambandið segir að þetta sé sé skylda ætli dómararnir að fá að dæma leiki. Þetta kemur fram í frétt á heimasíðu sambandsins.

Að auki verður nýtt lottó tekið upp til að ráða því hvaða leiki viðkomandi dómari dæmir.

Shevchenko er bara búinn að vera forseti sambandsins í rúman mánuð.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×