Fótbolti

Ye þakkaði stuðnings­mönnum Inter fyrir sig og sá liðið vinna

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Rapparinn Ye fékk nokkra vel valda stuðningsmenn Inter til að syngja inn á nýjustu plötuna sína, Vultures1. Hann var svo mættur á leik liðsins gegn Atlético Madrid í kvöld. Hvort hann hafi séð leikinn vel með þessa grímu skal látið ósagt.
Rapparinn Ye fékk nokkra vel valda stuðningsmenn Inter til að syngja inn á nýjustu plötuna sína, Vultures1. Hann var svo mættur á leik liðsins gegn Atlético Madrid í kvöld. Hvort hann hafi séð leikinn vel með þessa grímu skal látið ósagt. Stefano Guidi/Getty Images

Bandaríski rapparinn Kanye West, eða Ye, var meðal áhorfenda á San Siro er Inter tók á móti Atlético Madrid í fyrri leik liðanna í sextán liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í kvöld.

Ye vakti mikla athygli er hann gekk inn á leikvanginn með fylgdarliði sínu, klæddur í svarta grímu sem huldi andlit hans algjörlega.

Rapparinn umdeildi gerði sér þó ekki ferð til Ítalíu sérstaklega til þess að fylgjast með viðureign Inter og Atlético Madrid í sextán liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu. Hann verður með tónleika í borginni Bologna á laugardag og tók krók á leið sinni til að fylgjast með leiknum. Ye gaf út plötu á dögunum sem ber nafnið Vultures1.

Vera bandaríska rapparans Kanye West á leik í Meistaradeild Evrópu myndi líklega alla jafna ekki rata á íslenska íþróttamiðla, nema fyrir þær sakir að hluti af blóðheitustu stuðningsmönnum Inter, svokölluðum „Ultras,“ sungu inn á plötu rapparans.

Heyra má í stuðningsmönnum Inter í tveimur lögum rapparans á plötunni, sem bera nöfnin Stars og Carnival. Platan kom út fyrir tíu dögum síðan og er síðarnefnda lagið, Carnival, mest spilaða lag plötunnar með rétt tæplega fimmtíu milljónir spilanna á tónlistarveitunni Spotify þegar þetta er ritað.


Tengdar fréttir

Inter fer með forystuna til Spánar

Internazionale, toppliðið á Ítalíu, vann sterkan 1-0 sigur er liðið tók á móti Atletico Madrid, liðinu í fjórða sæti á Spáni, í fyrri leik liðanna í sextán liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í kvöld.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×