Erlent

Matvælaáætlun SÞ gerir hlé á neyðar­að­stoð í norður­hluta Gasa

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Barist um brauðið í Rafah í suðurhluta Gasa. Hungursneyð er sögð blasa við börnum á svæðinu.
Barist um brauðið í Rafah í suðurhluta Gasa. Hungursneyð er sögð blasa við börnum á svæðinu. AP/Fatima Shbair

Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna (WFP) hefur tilkynnt að hún hyggist gera hlé á afhendingu mataraðstoðar í norðurhluta Gasa vegna niðurbrots á lögum og reglu.

Ákvörðunin var tekin í kjölfar uppákoma 18. og 19. febrúar þar sem ráðist var á ökumann flutningabifreiðar á vegum Matvælaaðstoðarinnar og farminum rænt.

Samkvæmt Sameinuðu þjóðunum voru gerðar 77 tilraunir til að koma neyðargögnum til norðurhluta Gasa á tímabilinu 1. janúar til 15. febrúar. 

Að sögn talsmanna SÞ greiddu Ísraelsmenn fyrir aðstoðinni í tólf tilvikum og áttu einhverja aðkomu að þremur. Þá mætti aðstoðin hömlum í fjórtán tilvikum og níu var frestað. Þrjátíu og níu tilraunir voru stöðvaðar og mönnum meinaður aðgangur að svæðinu.

Samkvæmt nýrri skýrslu sem unnin var með stuðningi Sameinuðu þjóðanna er eitt af hverjum sex börnum undir tveggja ára aldri á Gasa nú alvarlega vannært.

Þá hefur Alþjóðaheilbrigðisstofnunin sakað Ísraela um að hamla björgunarstörfum á Nasser-sjúkrahúsinu í suðurhluta Gasa. Starfsmenn stofnunarinnar segja eyðilegginguna umhverfis spítalann „ólýsanlega“ og segja um 130 sjúklinga og að minnsta kosti fimmtán heilbrigðisstarfsmenn sitja fast án rafmagns og rennandi vatns.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×