Heimamenn byrjuðu leikinn af gríðarlegum krafti og Alex Berenguer kom liðinu yfir þegar innan við tvær mínútur voru liðnar. Reyndist það eina mark fyrri hálfleiks en sá síðari var hins vegar frábær skemmtun.
Viktor Tsygankov jafnaði metin snemma eftir að leikurinn var flautaður á að nýju. Gestirnir voru þó ekki lengi í paradís þar sem Berenguer kom heimamönnum yfir á nýjan leik þegar 56. mínútur voru liðnar.
Aðeins fjórum mínútum síðar var staðan orðin 3-1, Iñaki Williams með markið. Eric Garcia, lánsmaður frá nágrönnunum í Barcelona, minnkaði muninn fyrir gestina eftir sendingu frá nafna sínum Aleix Garcia þegar stundarfjórðungur var til leiksloka.
Ekki voru fleiri mörk skoruð og lauk leiknum með 3-2 sigri Athletic Bilbao. Sigurinn þýðir að heimamenn eru nú með 49 stig í 5. sæti, tveimur minna en Atlético Madríd sem er sæti ofar. Girona er svo í 2. sæti með 56 stig, sex minna en topplið Real Madríd.