Fótbolti

Ís­land heldur á­fram að falla niður um sæti á FIFA-listanum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson í leik með íslenska landsliðinu.
Gylfi Þór Sigurðsson í leik með íslenska landsliðinu. Vísir/Hulda Margrét

Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu er komið niður í 73. sætið á nýjum styrkleikalista Alþjóða knattspyrnusambandsins.

Liðið fellur niður um tvö sæti frá síðasta FIFA-lista sem var gefinn út í desember. Þetta er því fyrsti listinn á árinu 2024.

Íslenska landsliðið hóf árið 2023 í 63. sætinu og hefur því fallið niður um tíu sæti á listanum á þessu rúma eina ári.

Sigrar á Hondúras og Gvatemala í vináttulandsleikjum í janúar voru ekki nógu góð úrslit fyrir íslensku strákana til þess að halda sæti sínu á listanum.

Það eru líka liðnir sextán mánuðir síðan að íslenska liðið fór síðast upp á listanum en það var á listanum sem var gefinn út í október 2022. Síðan þá hefur Ísland annað hvort staðið í stað eða dottið niður um sæti.

Jórdanía, sem komst alla leið í úrslitaleik Asíukeppninnar, fer upp fyrir Ísland en landslið þjóðarinnar hækkaði sig um sautján sæti. Grænhöfðaeyjar hækkuðu sig um átta sæti og komust líka upp fyrir Ísland.

Efstu tíu sætin á listanum standa áfram óbreytt. Argentína er númer eitt, Frakkland númer tvö og England númer þrjú. Belgía, Brasilía, Holland, Portúgal, Spánn, Ítalía og Króatía eru einnig inn á topp tíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×