Erlent

Austin aftur inn á sjúkra­hús og að­stoðar­ráð­herrann tekinn við í bili

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Læknar gera enn ráð fyrir að Austin, sem er 70 ára, nái góðum bata eftir krabbameinsmeðferðina.
Læknar gera enn ráð fyrir að Austin, sem er 70 ára, nái góðum bata eftir krabbameinsmeðferðina. AP/Kevin Wolf

Lloyd Austin, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, hefur falið aðstoðarráðherra sínum að sinna embættisskyldum sínum á meðan hann dvelst á spítala vegna vandamála í þvagblöðru.

Ráðherrann var harðlega gagnrýndur fyrr á þessu ári fyrir að hafa greinst með krabbamein í blöðruhálskirtli og lagst tvívegis inn á sjúkrahús, í desember og janúar, án þess að láta aðstoðarráðherrann og/eða Hvíta húsið vita.

Í þetta sinn gaf varnarmálaráðuneytið því út yfirlýsingu í gær þar sem sagði að Austin hefði verið lagður inn á Walter Reed National Military Medical Center í Virginíu og að Hvíta húsinu og öðrum hefði verið gert viðvart.

Nokkrum klukkustundum síðar var önnur tilkynning send út þar sem greint var frá því að Austin hefði falið aðstoðarvarnarmálaráðherranum Kathleen Hicks að sinna öllum embættisskyldum sínum.

Læknar Austin segja umrætt vandamál sem ráðherrann glímir nú við í þvagblöðrunni ekki breyta því að þeir geri ráð fyrir að hann nái góðum bata eftir meðferðina við blöðruhálskirtilskrabbameininu.

Austin gekkst undir skurðaðgerð vegna krabbameinsins í desember og var lagður aftur inn á nýársdag vegna verkja í fótum, mjöðm og kviði. Rannsóknir leiddu í ljós að um var að ræða þvagfærasýkingu og lá Austin inni í tvær vikur á meðan hann var að jafna sig.

Ráðherrann boðaði til blaðamannafundar í síðustu viku þar sem sagðist iðrast þess mjög að hafa ekki látið vita af krabbameinsgreiningunni. Þá sagðist hann hafa beðið Joe Biden Bandaríkjaforseta persónulega afsökunar.

Hann hefði ekki beðið starfsmenn sína að halda sjúkdómsgreiningunni leyndri.

Sem varnarmálaráðherra er Austin næstæðsti yfirmaður bandaríska hersins á eftir forsetanum.


Tengdar fréttir

Ráðast enn og aftur á Húta

Bandaríkin og Bretland gerðu loftárásir á Húta í Jemen í dag í nýjustu bylgju aðgerða til að fella vígahópa sem eru studdir af Írönum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×