Fótbolti

Ísak skoraði í fjórða leik Düsseldorf í röð án sigurs

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Mark Ísaks dugði ekki til í dag.
Mark Ísaks dugði ekki til í dag. Andreas Gora/picture alliance via Getty Images

Ísak Bergmann Jóhannesson skoraði eina mark Fortuna Düsseldorf er liðið gerði 1-1 jafntefli gegn Elversberg í þýsku B-deildinni í knattspyrnu í dag.

Ísak og félagar hafa ekki átt góðu gengi að fagna í deildinni undanfarið. Liðið hafði aðeins unnið einn af seinustu fimm deildarleikjum sínum fyrir leik dagsins og þar af hafði liðið tapað þremur af þessum seinustu fimm.

Útlitið var gott fyrir heimamenn frá Düsseldorf í upphafi leiks þegar Ísak Bergmann kom liðinu yfir strax á 19. mínútu. Reyndist það eina mark fyrri hálfleiksins og staðan því 1-0 þegar flautað var til hálfleiks og liðin gengu til búningsherbergja.

Joseph Boyamba jafnaði þó metin fyrir gestina snemma í síðari hálfleik eftir stoðsendingur frá Jannik Rochelt áður en Wahidullah Faghir virtist vera að tryggja gestunum sigur með marki á seinustu mínútu venjulegs leiktíma, en markið þó dæmt af vegna rangstöðu. Niðurstaðan því 1-1 jafntefli og Ísak og félagar hafa nú leikið fjóra deildarleiki í röð án sigurs.

Fortuna Düsseldorf situr nú í sjötta sæti þýsku B-deildarinnar með 32 stig eftir 21 leik, þremur stigum meira og Elversberg sem situr í níunda sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×