Fótbolti

Bláu kortin ekki kynnt til sögunnar jafn fljótt og vonast var til

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Rauð og gul spjöld verða hins vegar á sínum stað.
Rauð og gul spjöld verða hins vegar á sínum stað. Mike Hewitt/Getty Images

Það virðist sem öll séu ekki á sömu blaðsíðu þegar kemur að bláaum spjöldum í knattspyrnu. Prófa átti regluverkið á næstu leiktíð en nú virðist sem því hafi verið frestað.

Eins og Vísis greindi frá átti að kynna bláu spjöldin til leiks í völdum keppnum á Englandi á næstu leiktíð. Hugmyndin var sú að leikmenn sem rífa kjaft við dómarann eða brjóta af sér á taktískan hátt – til að stöðva skyndisókn til dæmis – myndu fá blátt spjald.

Ef leikmaður hlyti tvö blá spjöld í einum og sama leiknum yrði honum vísað af velli. Sama á við ef leikmaður fær gult og blátt spjald. Nú hafa ýmsir miðlar erlendis, þar á meðal The Athletic, greint frá því að Alþjóðaknattspyrnusambandið FIFA, sé ekki á sömu blaðsíðu og IFAB, Alþjóðlega knattspyrnuráðið.

Hugmyndin var samþykkt af IFAB í nóvember síðastliðnum en þar sem FIFA veitir ekki blessun sína þá er ljóst að eitthvað er í að við sjáum fyrsta bláa spjaldið fara á loft. The Athletic greinir frá því að þetta verði rætt á fundi sem fram fer í Loch Lomond í Skotlandi í næsta mánuði.

Ange Postecoglou, hinn skemmtilegi stjóri Tottenham Hotspur, er alfarið á móti hugmyndinni og segir fráleitt að knattspyrnan sé að reyna finna leið til að hægja á leiknum.

„Ég sé ekki mikið að leiknum í dag og sé ekki fram á að spjald með nýjum liti breyti einu né neinu. Flestar aðrar íþróttir eru að reyna gera leikinn hraðari og ég skil ekki af hverju við erum að fara í hina áttina.“

Jürgen Klopp, þjálfari Liverpool, er á sama máli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×