Enski boltinn

Tíu mínútur í skammar­króknum ef leik­menn fá bláa spjaldið

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Tíu mínútuna brottvísun á þig.
Tíu mínútuna brottvísun á þig. E+/simonkr

The Telegraph hefur staðfest að IFAB, alþjóðlega knattspyrnuráðið, ætli á föstudag að kynna blá spjöld til leiks í knattspyrnu.

Seint á síðasta ári greindi Vísir frá því að leikmenn myndu frekar fara í tíu mínútna „kælingu“ fyrir kjaftbrúk eða taktísk brot heldur en að fá gul spjöld fyrir slík athæfi. 

Upprunalega var talað um „appelsínugul“ spjöld en oft er talað að tæklingar verðskuldi  „appelsínugult“ spjald. Það er, þær verðskulda meira en hefðbundið gult spjald en þó ekki rautt. 

Nú er liturinn orðinn blár og mun spjaldið fara á loft þegar leikmenn gerast sekir um að rífa kjaft við dómarann eða þegar þeir brjóta viljandi af sér til að stöðva skyndisókn. 

Eftir að fá bláa spjaldið yrði téður leikmaður að yfirgefa völlinn í tíu mínútur.  Ekki kemur fram hvort tæklingar sem verðskuldi „appelsínugul“ spjöld séu inn í mengingu eður ei. 

Fari svo að menn fái tvö blá spjöld í einum og sama leiknum þá er niðurstaðan sú sama og ef leikmenn fá tvö gul spjöld, þeir verða sendir í sturtu. Að sama skapi verður leikmaður sendur af velli fái hann gult og blátt spjald í sama leiknum.

Í frétt The Telegraph segir að enska knattspyrnusambandið, FA, stefni á að prófa blá spjöld í einhverjum af neðri deildunum karla megin og ensku bikarkeppninni kvenna megin.

Aleksander Čeferin, fráfarandi forseti Knattspyrnusambands Evrópu – UEFA, er á móti hugmyndinni og segir að leikurinn sé að breytast svo mikið að ekki sé lengur um knattspyrnu að ræða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×