Fótbolti

„Heimsku­legt“ að mati þjálfara Willums

Sindri Sverrisson skrifar
Willum Þór Willumsson á ferðinni í leiknum gegn Vitesse.
Willum Þór Willumsson á ferðinni í leiknum gegn Vitesse. Getty/Henny Meijerink

Willum Þór Willumsson, landsliðsmaður í fótbolta, er kominn í tveggja leikja bann í hollensku úrvalsdeildinni eftir brot sem þjálfari hans kallaði „heimskulegt“. Hann missir meðal annars af slag við erkifjendur um næstu helgi.

Willum fékk beint rautt spjald í uppbótartíma útileiks gegn botnliði Vitesse á sunnudaginn, fyrir að renna sér og sparka létt aftan í andstæðing. Brotið má sjá hér að neðan, eftir 14 mínútur og 40 sekúndur.

Go Ahead Eagles, lið Willums, var yfir þegar rauða spjaldið fór á loft og vann leikinn 2-0, en ljóst er að liðið mun sakna Willums í næstu leikjum því hann hefur verið í stóru hlutverki.

Á vef hollenska miðilsins AD er haft eftir þjálfara Go Ahead Eagles, René Hake, að brotið hafi verið „óheppilegt“ en hann bætti svo í og sagði það „heimskulegt.“ „Hann gerði liði sínu óleik,“ sagði Hake.

Sjálfur vildi Willum meina að brot sitt hefði frekar verðskuldað gult spjald.

„Það vita það allir að ég er ekki grófur leikmaður. Ég var bara að reyna að stöðva sóknina og hélt að ég fengi gult spjald. Þetta var mjög vægt,“ sagði Willum og bætti við:

„Ég tæklaði hann að aftan en það er ekki eins og ég hafi á nokkurn hátt ætlað mér að meiða hann. Ég felldi hann en það var enginn slæmur hugur á bakvið þetta og engin hætta af þessu. Þess vegna fannst mér þetta mjög vægt.“

Go Ahead Eagles eru núna með 30 stig í 6. sæti en næsti leikur liðsins er heimaleikur við erkifjendurna í PEC Zwolle á sunnudag. Leikir liðanna hafa verið kallaðir IJssel-slagurinn eftir ánni IJsell sem heimaborgir liðanna eru staðsettar við. Willum missir svo einnig af lútileik við Heerenveen 17. febrúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×