Fótbolti

Willum einn af pressukóngum Evrópu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Willum Þór Willumsson á ferðinni með boltann í leik með hollenska liðinu Go Ahead Eagles.
Willum Þór Willumsson á ferðinni með boltann í leik með hollenska liðinu Go Ahead Eagles. Getty/Henny Meyerink

Íslenski landsliðsmaðurinn Willum Þór Willumsson er í frábærum hópi á mjög athyglisverðum tölfræðilista unnum upp úr upplýsingum frá sjö bestu deildum Evrópu.

Willum skipar sjötta til sjöunda sætið yfir þá leikmenn sem hafa unnið flesta bolta á síðasta þriðjungnum. Tölfræðin sýnir því að Willum er einn af pressukóngum Evrópu.

Squawka Football birti listann fyrir leikina í miðri viku en sjö bestu deildirnar eru í Englandi, á Spáni, í Þýskalandi, í Frakklandi, á Ítalíu, í Portúgal og í Hollandi.

Willum spilar með Go Ahead Eagles í hollensku deildinni og hefur unnið boltann 24 sinnum á hættulegasta svæði vallarins.

Hann hefur unnið einum bolta fleiri en Real Madrid stórstjarna Jude Bellingham.

Það eru aðeins fimm leikmenn í sjö bestu deildum Evrópu sem hafa unnið fleiri bolta framarlega á vellinum.

Efstur er Viktor Gyökerea hjá Sporting Lissabon í Portúgal með 32 unna bolta eða þremur fleiri en Conor Gallagher hjá Chelsea sem er annar með 29 unna bolta.

Næstur á undan Willum er Bruno Fernandes hjá Manchester United með 25 unna bolta en í sama sæti eru Florian Wirtz hjá Bayer Leverkusen og Lucas Ocampis hjá Sevilla hafa líka unnið 25 bolta.

Willum er 25 ára gamall og hefur spilað með liði Go Ahead Eagles frá 2022. Hann lék áður með BATE Borisov í Hvíta-Rússlandi en lék með Breiðabliki hér heima.

Willum er með 6 mörk og 2 stoðsendingar í 19 deildarleikjum á tímabilinu en Go Ahead Eagles situr í sjötta sætinu eftir þessar nítján umferðir.

Willum hefur verið fastamaður í íslenska landsliðinu í síðustu verkefnum.

@squawkafootball's profile picture squawkafootball



Fleiri fréttir

Sjá meira


×