Innlent

Vís­bendingar um bak­slag í kynjahlutföllum innan lög­reglunnar

Margrét Björk Jónsdóttir skrifar
Sigríður Björk Guðjónsdóttir, ríkislögreglustjóri.
Sigríður Björk Guðjónsdóttir, ríkislögreglustjóri. Vísir/Vilhelm

Lögreglan er enn mjög kynjaskiptur vinnustaður og engin merki eru um að það muni breytast án þess að ráðist verði í aðgerðir. Þetta er meðal þess sem kemur fram í niðurstöðum rannsóknar á vinnumenningu lögreglunnar. Jafnframt kemur fram að þrátt fyrir að konum hafi fjölgað innan lögreglunnar á síðustu árum og hlutfall karla og kvenna hafi jafnast, séu nú vísbendingar um bakslag.

Niðurstöður rannsóknarinnar voru birtar á vef lögreglunnar í morgun. Rannsóknin er framhaldsrannsókn á vinnumenningu og kynjatengslum sem fyrst var gerð árið 2013. Ríkislögreglustjóri í samvinnu við lögregluembættin og dómsmálaráðuneytið bar ábyrgð á rannsókninni.

Menntaðar lögreglukonur líklegastar til að verða fyrir áreitni

Niðurstöður rannsóknarinnar gefa vísbendingar um að birtingarmynd kynferðislegrar áreitni innan lögreglu hafi breyst frá árinu 2013.

„Færri konur nefna kynferðislega snertingu og fleiri nefna niðrandi tal og brandara af kynferðislegum toga,“ segir á vef lögreglunnar. Reynsla karla hefur staðið í stað eða minnkað.

„Um 15 prósent starfsfólks hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni í starfi sínu eða í tengslum við starf sitt hjá lögreglunni og eru konur líklegri til að hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni en karlar.“

Þá kemur fram að menntaðar lögreglukonur séu líklegastar til að hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni. Um sextíu prósent þeirra kvenna sem urðu fyrir tilgreindu karlkyns samstarfsmenn sem geranda.

Átján prósent kvenna orðið fyrir kynbundnu áreiti við störf

Niðurstöður rannsóknarinnar leiða einnig í ljós að konur séu líklegri til að hafa orðið fyrir kynbundnu áreitni í starfi sínu eða í tengslum við starf sitt. Um fimmtán prósent starfsfólks hefur orðið fyrir kynbundinni áreitni, þar af átján prósent kvenna og sjö prósent karla.

Niðurstöður nýrrar rannsóknar gefa vísbendingar um að birtingarmynd kynferðislegrar áreitni innan lögreglu hafi breyst frá árinu 2013. Vísir/Vilhelm

Þá bendir samanburður við fyrri kannanir til þess að reynsla af einelti hafi minnkað meðal lögreglumanna og staðið í stað meðal borgaralegra starfsmanna.

Um 14 prósent starfsfólks hafa orðið fyrir einelti í starfi sínu eða í tengslum við starf sitt hjá lögreglunni.

Skýrsluna í heild sinni má finna hér. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×