Fótbolti

Baulað á Beckham í fjar­veru Messi

Siggeir Ævarsson skrifar
David Beckham stillir sér upp ásamt poppstjörnunni G.E.M. fyrir leikinn
David Beckham stillir sér upp ásamt poppstjörnunni G.E.M. fyrir leikinn vísir/Getty

40.000 aðdáendur Lionel Messi voru ósáttir við að sjá sinn mann ekki spila í æfingaleik Inter Miami gegn Hong Kong XI, en Messi er að glíma við meiðsli aftan í læri.

David Beckham, sem er forseti félagsins og einn af eigendum þess, ávarpaði áhorfendur fyrir leikinn og þakkaði þeim kærlega fyrir stuðninginn og höfðinglegar móttökur. Þær voru þó ekki höfðinglegri en svo að mannhafið baulaði á Beckham þegar ljóst var að Messi myndi ekki spila.

Uppselt var á leikinn og höfðu sumir ferðast um langan veg til að berja Messi augum. Það lá þó alltaf fyrir að Messi væri ekki heill heilsu og myndi mögulega ekki spila og var það gefið sérstaklega út fyrir leikinn að endurgreiðslur væru ekki inni í myndinni ef Messi myndi forfallast.

Miðarnir á leikinn kostuðu allt upp undir 460 dollara og var Messi notaður óspart í auglýsingum fyrir leikinn. Einn ósáttur aðdáandi lét hafa þetta eftir sér:

„Ég var kominn í upphitun og það eina sem ég sá var hann að teygja á. Messi er ekki ofurmódel. Fólk borgar ekki fyrir að sjá hann sitja á bekknum.“

Stjórstjörnurnar Lionel Messi og Luis Suarez á bekknum á bekknumvísir/Getty

Miklu var tjaldað til í undirbúningi og kynningu fyrir leikinn en skipuleggjendur hans fengu styrk að upphæð tvær milljónir dollara frá stjórnvöldum í aðdraganda hans til að koma honum í kring.

Yfirvöld í Hong Kong sendu frá sér yfirlýsingu eftir leikinn þar sem kom fram að það hefðu verið mikil vonbrigði að Messi hefði ekki tekið þátt í leiknum og ljóst að málið mun draga dilk á eftir sér.

„Yfirvöld sem og knattspyrnuunnendur eru afar vonsvikin með það hvernig skipuleggjendur stóðu að þessu. Þeir skulda öllu knattspyrnuaðdáendum útskýringar. Íþróttamálanefnd ríkisins mun taka málið upp með skipuleggjendum og draga úr styrkveitingum í ljósi þess að Messi tók ekki þátt í leiknum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×