Fótbolti

Minntu á opnunar­tíma skrif­stofunnar svo KR gæti skilað bikarnum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Sigurður Bjartur Hallson tryggði KR-ingum sigur í vítaspyrnukeppninni í gær. Sigurinn hefur hins vegar verið dæmdur af KR-ingum.
Sigurður Bjartur Hallson tryggði KR-ingum sigur í vítaspyrnukeppninni í gær. Sigurinn hefur hins vegar verið dæmdur af KR-ingum. Samsett

Víkingur og KR mættust í úrslitaleik Reykjavíkurmótsins í gær þar sem KR-ingar göfnuðu sigri eftir vítaspyrnukeppni. Víkingum var þó dæmdur sigurinn þar sem KR-ingar notuðu ólöglegan leikmann.

Alex Þór Hauksson, nýr leikmaður KR, var ekki kominn með leikheimild þegar leikurinn fór fram en þetta staðfesti Birkir Sveinsson, mótastjóri KSÍ, við Vísi í morgun.

Bjarni Guðjónsson, framkvæmdastjóri KR, útskýrði nánar hvernig þetta gekk fyrir sig í viðtali við Vísi í morgun og sagði þar að KR-ingar hefðu fengið þær upplýsingar að Alex Þór væri með leikheimild. Klukkutíma síðar hafi hann hins vegar fengið að vita að svo væri ekki, en að KR-ingar hafi ákveðið af fótboltalegum ástæðum að spila leikinn eins og hann hafði verið settur upp.

Víkingum var þar með dæmdur 3-0 sigur í leiknum og eru þeir því Reykjavíkurmeistarar. Einhverjum í samfélagsmiðlateymi Víkings datt svo í hug í dag að skjóta föstum skotum á KR-inga og minna þá á hvenær skrifstofa félagsins væri opin svo leikmenn liðsins gætu skilað medalíum og bikar á sinn stað. Færslan birtist á samfélagsmiðlinum X, áður Twitter, en henni hefur nú verið eytt.

Skjáskot

„Hæ KR. Hvenær í dag hentar ykkur að hittast og skiptast á medalíum og afhenda bikarinn?“ sagði í færslu Víkinga.

„Skrifstofan er opin til kl. 16. Endilega látið okkur vita. Kær kveðja, Víkingur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×