Fótbolti

Stál í stál hjá Söru Björk og Alexöndru

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Sara Björk í leik kvöldsins á meðan Alexandra fylgist með í fjarska.
Sara Björk í leik kvöldsins á meðan Alexandra fylgist með í fjarska. Jonathan Moscrop/Getty Images

Juventus og Fiorentina gerðu 2-2 jafntefli í Serie A, ítölsku úrvalsdeildar kvenna í knattspyrnu, í kvöld. Sara Björk Gunnarsdóttir og Alexandra Jóhannsdóttir voru í byrjunarliðum liða sinna.

Íslensku miðjumennirnir hófu báðar leikinn og framan af leik voru það gestirnir sem reyndust sterkari. Madelen Janogy skoraði bæði mörk Fiorentina í fyrri hálfleik á meðan Julia Angela Grosso skoraði fyrir Juventus á milli marka hjá Janogy.

Sara Björk var tekin af velli á 70. mínútu og fjórum mínútum síðar jafnaði Onyi Echegini metin fyrir Juventus. Skömmu síðar var Alexandra tekin af velli en þar sem hvorugu liðinu tókst að skora sigurmark þá lauk leiknum með 2-2 jafntefli.

Eftir leik kvöldsins er Juventus í 2. sæti með 34 stig að loknum 14 umferðum, fimm stigum minna en topplið Roma. Fiorentina er í 3. sæti með 32 stig.

Í Þýskalandi kom Sveindís Jane Jónsdóttir inn af bekknum í 3-1 útisigri Wolfsburg á Essen. Sigurinn lyftir Wolfsburg á topp deildarinnar með 28 stig eftir 11 umferðir, stigi meira en Þýskalandsmeistarar Bayern München.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×