Erlent

Finnur fjöl­skyldu sína loksins eftir átta­tíu ár

Jón Þór Stefánsson skrifar
Fræg ljósmynd frá Varsjá tekin í maí 1943 þegar gyðingum var gert að yfirgefa gettóið í borginni. Myndin er úr safni og tengist fréttinni ekki beint.
Fræg ljósmynd frá Varsjá tekin í maí 1943 þegar gyðingum var gert að yfirgefa gettóið í borginni. Myndin er úr safni og tengist fréttinni ekki beint. Getty

Barnungur drengur sem fannst yfirgefinn í gettói í Varsjá árið 1943 hefur fundið fjölskyldu sína á ný, nú háaldraður maður. Endurfundurinn varð fyrir tilstilli erfðarannsóknar sem leiddi í ljós að hann ætti fjölskyldu í Bandaríkjunum.

The Guardian fjallar um málið. Drengurinn slapp úr helförinni einungis tveggja ára gamall, en hann var meðal annars falinn í poka. Ekkert var vitað um hann, ekki einu sinni hvert nafn hans væri. Á eftirstríðsárunum flutti hann til Ísrael og þar, átta ára gamall, fékk hann nafnið sem hann ber enn þann dag í dag, Shamlom Korey.

Í dag er Korey 83 ára gamall og á þrjú börn og átta barnabörn. Allt stefnir í að í sumar muni hann hitta aðra blóðfjölskyldumeðlimi sína í fyrsta skipti.

„Ég vissi ekkert. Ef það væri ekki fyrir DNA-rannsóknina þá væri ekkert haldbært,“ er haft eftir Korey í The Guardian.

Ann Meddin Hellman, 77 ára gömul frænka hans sem er búsett í Suður Karólínuríki Bandaríkjanna, gekkst undir erfðarannsókn sem Jagiellonian-háskólinn í Kraká í Póllandi hefur leitt. Og rannsóknin leiddi þennan skyldleika í ljós.

Afi Hellmann flutti til Bandaríkjanna árið 1893 og bjargaði þar með sínum hluta fjölskyldunnar frá helförinni. Erfðarannsóknin telur ljóst að Korey sé barnabarn bróður afa hennar.

„Þegar við fengum myndina af honum senda hugsuðum bæði ég og maðurinn minn að þetta hlyti að vera bróðir minn. Við höfðum haldið að þessi hluti fjölskyldunnar hefði verið algjörlega þurrkaður út í helförinni.“

Í gær, 27 janúar, voru 79 ár frá því að starfsemi útrýmingarbúðanna í Auschwitz-Birkenau hætti eftir frelsun rauða hersins árið 1945. Dagurinn er jafnframt alþjóðlegur minningardagur um helförina.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×