Fótbolti

María tryggði Ís­lendinga­liði Fortuna stig á móti Ajax

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
María fagnar marki sínu.
María fagnar marki sínu. @FortunaVrouwen

María Catharina Ólafsdóttir Gros skoraði jöfnunarmark Fortuna Sittard í 1-1 jafntefli liðsins gegn Ajax í hollensku úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu í kvöld.

Alls eru þrír Íslendingar á mála hjá Fortuna eftir að Lára Kristín Pedersen gekk í raðir félagsins á dögunum. Hildur Antonsdóttir var þó sú eina sem byrjaði leik liðsins í dag.

María kom inn af bekknum þegar rúm klukkustund var liðin en þá var staðan enn markalaus. Ajax komst yfir á 73. mínútu en átta mínútum síðar jafnaði María metin eftir undirbúning hinnar belgísku Tessu Wullaert.

Stutt síðar kom Lára Kristín inn fyrir Hildi en mörkin urðu ekki fleiri og lauk leiknum með 1-1 jafntefli. Um var að ræða fyrsta leik Láru Kristínar fyrir félagið og var því fagnað með nokkrum myndum á samfélagsmiðlum Fortuna.

Fortuna er áfram í 3. sæti deildarinnar, nú með 23 stig, á meðan Ajax er sæti ofar með 27 stig. Twente er svo á toppnum með 36 stig.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×