Innlent

„Máttur í sér­hverri gjörð, hversu lítil sem hún er“

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Gjörningurinn var skipulagður af nemendum við LungA-skólann sem er listaskóli í bænum.
Gjörningurinn var skipulagður af nemendum við LungA-skólann sem er listaskóli í bænum. aðsend

Samstöðuganga með Palestínu var haldin í dag á Seyðisfirði og gengið var frá félagsheimilinu Herðubreið og út fjörðinn að vinnustofum listamanna í gömlu netagerðinni.

Einn þátttakandinn, hún Edda Kristín Sigurjónsdóttir, segir ekki ýkja marga hafa tekið þátt en að hver og einn hafi haft mikla nærveru. Fylkingin hafi sent hlýja strauma til Palestínumanna á Gasasvæðinu og Vesturbakkanum.

„Kannski voru þetta fjörutíu. Bærinn er hérna að undirbúa sig fyrir þorrablót þannig það er heilmikið í gangi í bænum í kvöld. Ég held að uppistaðan í þessum hópi hafi verið fólk sem tengist LungA-skólanum og svo hinir og þessir,“ segir Edda.

Alþjóðlegur hópur tók þátt.Aðsend

Edda er með gestavinnustofu í Skaftfelli, listamiðstöðinni á Austurlandi, og hefur dvelur á Seyðisfirði um þessar mundir. Hún segir að eftir gönguna hafi þátttakendur sest í kaffi í gömlu netagerðinni og átt líflegar umræður um ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs.

„Það var óformlegt spjall, engin ræðuhöld eða neitt svoleiðis, en þegar fólk drekkur saman kaffi þá er margt rætt,“ segir Edda.

Gjörðir einstaklingsins hafi eitthvað að segja

Hún segir að rætt hafi verið hvernig einstaklingar hér á hjörum veraldar geti haft áhrif á heiminn í kringum sig. og að ákvarðanir okkar og hegðun geti skipt máli.

„Við töluðum um sniðgöngu og að það geti verið máttur í sérhverri gjörð, hversu lítil sem hún er. Það er margt fólk á jörðinni þannig ef það eru fleiri sem hugsa svoleiðis, þó svo að stóru ákvarðanirnar séu teknar annars staðar, þá geta litlar gjörðir einstaklingsins líka haft eitthvað að segja,“ segir Edda.

Gengið var út fjörðinn og að aðstöðu listamanna í netagerðinni gömlu.Aðsend


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×