Innlent

Blæs á sögu­sagnir og segir al­gjöra ró hafa verið innan veggja skólans

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Frá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti. 
Frá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti. 

Skólastjórnendur Fjölbrautaskólans í Breiðholti segja allt hafa verið með kyrrum kjörum í skólanum í gær eftir að honum var lokað í kjölfar þess að stjórnendum bárust upplýsingar um að fyrrverandi nemandi hyggðist koma í skólann og valda miska.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Guðrúnu Hrefnu Guðmundsdóttur, skólameistara FB. Hún segir brýnt að réttar upplýsingar um málið komist til skila þar sem mikið af skrýtnum sögusögnum sé um málið á samfélagsmiðlum. 

Guðrún Hrefna hefur til þessa hafnað viðtali við fréttastofu um málið og vísað á lögreglu. Ekki hafa fengist svör frá lögreglunni vegna málsins, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Ýmsar sögusagnir, fullyrðingar og kenningar hafa verið á kreiki um handtökuna á samfélagsmiðlum og í hlaðvörpum. 

Tryggja öryggi nemenda

„Í gær, þann 24. janúar 2024 um tvöleytið bárust skólanum upplýsingar í síma um að fyrrum nemandi skólans hyggðist koma í skólann og valda miska. Viðbrögð skólans voru á þá leið að tryggja öryggi nemenda og starfsfólks með að hafa samband við lögreglu sem kom á vettvang innan tíu mínútna.“

Skólanum var lokað og settur vörður við útidyr. Eftir um það bil klukkustund hafi lögreglan handsamað þann sem hafði í hótunum og var hættunni þar með aflýst.

„Tekið skal fram að enginn kom inn í skólann og að innan veggja skólans var allt með kyrrum kjörum. Meðal nemenda og starfsfólks spurðist það fljótt út að lögregla væri komin á vettvang og vöknuðu við það ýmsar spurningar eins og skiljanlegt er,“ segir í tilkynningunni.

„Þegar þessu máli var lokið urðum við vör við að tveir einstaklingar voru handteknir í námunda við skólann, eins og greint hefur verið frá í fréttum. Af því máli höfum við ekki fengið frekari upplýsingar.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×