Enski boltinn

Salah rýfur þögnina: „Ég elska Egypta­land og fólkið þar“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mohamed Salah skoraði í fyrsta leik Egyptalands á Afríkumótinu en meiddist í öðrum leiknum.
Mohamed Salah skoraði í fyrsta leik Egyptalands á Afríkumótinu en meiddist í öðrum leiknum. getty/Visionhaus

Mohamed Salah, leikmaður Liverpool, ætlar að gera allt til að spila aftur með egypska landsliðinu á Afríkumótinu í fótbolta.

Salah meiddist í leik Egyptalands og Gana í síðustu viku. Hann fór í kjölfarið aftur til Englands til að fá bót meina sinna.

Einhverjir hafa gagnrýnt Salah fyrir að vera ekki með egypska liðinu og segja að hann hafi valið Liverpool fram yfir landsliðið.

Salah hefur nú tjáð sig um þessa umræðu á Twitter þar sem hann sagðist ætla að gera allt til að spila aftur með Egyptum á Afríkumótinu. 

„Í gær byrjaði ég í meðhöndlun og endurhæfingu og mun gera allt til að vera klár í slaginn sem fyrst og snúa aftur í landsliðið eins og var ákveðið í byrjun. Ég elska Egyptaland og fólkið þar,“ skrifaði Salah og endaði færslu sína á orðunum reynið betur þar sem hann birtist skjóta á gagnrýnendur sína.

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, kom Salah til varnar eftir leikinn gegn Fulham í fyrradag og sagði fráleitt að efast um heilindi leikmannsins.

Egyptaland mætir Kongó í sextán liða úrslitum Afríkumótsins á sunnudaginn. Egyptar komust í úrslit á síðasta Afríkumóti en töpuðu þar fyrir Senegölum í vítaspyrnukeppni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×